143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

ríkisstyrkt flug.

128. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svarið. Það er skýrt og greinargott, líkt og svör eiga reyndar að vera um þætti eins og hér er talað um vegna þess að mikilvægt er að íbúar þessara staða og þjónustuaðilar fái að vita það alveg klárt eins og hér kom fram að staðið verði við óbreytt flug, þ.e. flug verði til þessara staða, og að gert er ráð fyrir því í samgönguáætlun, bæði stuttu og löngu, þegar hún kemur fram eftir áramót.

Það er ákaflega mikilvægt að óvissu sé eytt. Ég fagna því þessu svari og yfirlýsingu hæstv. ráðherra að staðið verði áfram dyggilega við bakið á flugi til þeirra staða sem þurfa að fá styrk úr ríkissjóði til að hægt sé að halda því uppi.