143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

129. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér fyrir hæstv. innanríkisráðherra tvær spurningar um Húsavíkurflugvöll sem komu upp líka eins og ég gat um áðan í kjördæmavikunni á fundum okkar með sveitarstjórnarmönnum. Það var mikið rætt með fulltrúum sveitarfélagsins Norðurþings um framtíð flugs til Húsavíkurflugvallar.

Eins og við vitum, virðulegi forseti, hófst aftur áætlunarflug til Húsavíkur í apríl 2012 og móttökur voru strax mjög góðar. Ferðir á Húsavíkurflugvöll eru tíu sinnum í viku. Það er flugfélagið Ernir sem notar í það 19 farþega Jetstream vélar sem henta mjög vel fyrir þessa leið. Áætlaður farþegafjöldi á þessu ári, árið 2013, er um 10 þúsund manns. Þess má geta, virðulegi forseti, að árið 1998 þegar Flugfélag Íslands hætti reglubundinni áætlunarflugi á Húsavíkurflugvöll í Aðaldal voru farþegarnir 18 þúsund talsins. Nú eru þeir sem sagt þegar orðnir 10 þúsund þrátt fyrir mikið flug og margar ferðir daglega og alla vikuna á Akureyrarflugvöll.

Þetta flug hefur gengið með ágætum og það má auðvitað reikna með mikilli aukningu í áætlunarflugi til Húsavíkurflugvallar á næsta ári þegar framkvæmdir við uppbyggingu á Bakka hefjast. Ég segi alveg hiklaust „þegar þær hefjast“ á næsta ári.

Það er vandamál við þetta flug, virðulegi forseti. Það er vegna þess að aðflugsviti á Húsavíkurflugvelli er orðinn gamall og að mati sérfræðinga Isavia ekki brúklegur lengur. Því er mjög nauðsynlegt til að tryggja öryggi í áætlunarflugi til Húsavíkur að endurnýja þessi öryggistæki. Það er annars vegar aðflugsviti sem gerir það að verkum að hægt er að taka flugvélar inn í 320 feta skyggnishæð og hins vegar fjarlægðarmælir.

Á síðasta ári er talið að tólf sinnum hafi ekki verið hægt að lenda á Húsavíkurflugvelli því að þessi tæki skorti. Þegar við vorum á fundi með Húsvíkingum voru það þegar orðin 21 flug á þessu ári sem ekki gaf. Það er auðvitað mjög mikill kostnaður sem þessu fylgir.

Hins vegar, virðulegi forseti, er önnur spurning mín um þjónustusamning, hvort ekki séu uppi áform um þjónustusamning milli ráðuneytisins og Isavia um rekstur Húsavíkurflugvallar í Aðaldal. En hin spurningin er um aðflugsvita og fjarlægðarmæli og hvort ekki standi til að setja þann búnað upp til að auka öryggi þeirra sem um völlinn fara.