143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

129. mál
[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Kristjáni Möller, fyrir þessar spurningar um Húsavíkurflugvöll. Ég ætla að svara fyrst spurningunni er lýtur að áformum um þjónustusamning milli ráðuneytisins og Isavia um rekstur Húsavíkurflugvallar í Aðaldal.

Er það þannig, eins og hv. þingmaður þekkir, að þjónustusamningur milli innanríkisráðuneytisins og Isavia ohf. er nú þegar í gildi, hann er í gildi til áramóta. Því er til að svara að ekki er gert ráð fyrir öðru en að starfsemi á Húsavíkurflugvelli verði óbreytt á næsta ári, þannig að ekki eru fyrirhugaðar breytingar á þeim samningi. Í samningnum er, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki, kveðið á um ákveðna þætti er tengjast rekstri flugvallarins, sem er auðvitað breytilegur eftir dögum og tekur mið af þörfum flugrekenda. Isavia hefur sinnt þessu vel og við treystum því að þannig verði það áfram.

Þá komum við að spurningunni er lýtur að aðflugsvitanum og fjarlægðarmæli á Húsavíkurflugvelli til að auka, eins og hv. þingmaður kom inn á, öryggi áætlunarflugsins.

Það er samt rétt að ítreka það og minna á til þess að fyrirbyggja allan misskilning að öryggi áætlunarflugsins, þ.e. þegar veður eru viðunandi, er ekki raskað þrátt fyrir það sem lýst var hér áðan í ræðunni. Það er tryggt án þess búnaðar sem hér er upp talinn. Það er hins vegar alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þessi búnaður, aðflugsvitinn og fjarlægðarmælir, gerir mögulegt að lenda á Húsavíkurflugvelli með sama örugga hætti við verri veðurskilyrði. Ég ætla ekki að draga í efa þær tölur sem nefndar voru um fjölda þeirra skipta sem ekki hefur verið hægt að lenda því búnaðurinn eykur að sjálfsögðu áreiðanleika flugsins sem samgöngumáta á þessu svæði.

Það er hins vegar svo að í nokkurn tíma, eins og kom hér fram, hefur stefnusendir og fjarlægðarmælir verið í notkun á Húsavíkurflugvelli, en búnaðurinn er kominn til ára sinna og hann uppfyllir ekki nauðsynleg skilyrði eða viðmið til notkunar. Þess vegna hefur verið slökkt á umræddum búnaði um nokkurt skeið enda flugvöllurinn verið minna notaður o.s.frv. Eins og hv. þingmaður kom inn á er gert ráð fyrir því að kostnaður við að uppfæra þennan búnað og gera hann nothæfan fyrir völlinn sé um 60 millj. kr., sem er auðvitað talsverð upphæð í samhengi hlutanna, en ég ítreka að við erum meðvituð um þennan þátt. Við þekkjum það að betra væri og best væri að ekki þyrfti ekki að gefa nokkurn afslátt á öryggissjónarmiðum, ekki einu sinni þegar veður eru válynd og hægt væri að lenda í öllum veðrum. Það er hins vegar svo að það er í höndum Isavia að tryggja öryggi á flugvöllum landsins með þeim búnaði sem til þarf hverju sinni. Ég verð sem innanríkisráðherra að treysta því að þar á bæ, þ.e. hjá Isavia, haldi menn vel á þessu mikilvæga verkefni og tryggi öryggi á Húsavíkurflugvelli eftir þörfum og líkt og á öðrum flugvöllum á landinu.

Ég get því miður ekkert sagt nákvæmlega um það líkt og fyrirspyrjandi óskaði eftir hvort örugglega verði gerð bragarbót á þessu. Það er ljóst að samningurinn milli ráðuneytisins og Isavia verður í fullu gildi á næsta ári. Ég vonast innilega til þess að mönnum takist að fullnægja öllum öryggiskröfum og þörfum á vellinum. En ég árétta það einnig að hér er um að ræða nokkurn viðbótarkostnað, 60 millj. kr., og Isavia verður að meta hvernig er farsælast að halda uppi öryggi á vellinum.