143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eign Byggðastofnunar á Breiðdalsvík.

134. mál
[16:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda annars vegar fyrirspurnina og hins vegar að taka til umræðu erfiða stöðu einstakra byggða sem sannarlega flokkast sem brothættar, eins og á Breiðdalsvík, og hvaða möguleika menn hafa þar.

Í lögum, reglugerð og starfs- og verklagsreglum Byggðastofnunar er ekki gert ráð fyrir því að eignir stofnunarinnar séu gefnar. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að fjárhagslegt markmið lánastarfsemi Byggðastofnunar skuli vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi. Með það markmið að leiðarljósi er gert ráð fyrir því í verklagsreglum stofnunarinnar að fullnustueignir séu seldar á markaðsvirði eins fljótt og unnt er. Takist það ekki er reynt að halda rekstrarkostnaði í lágmarki með því að leigja þær út.

Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda er frystihúsið á Breiðdalsvík talsvert mikið hús og þar að auki er það ein elsta fullnustueign Byggðastofnunar og hefur verið í útleigu með hléum frá árinu 2006. Þó að ekki hafi komið til álita að gefa Breiðdalshreppi eða öðrum eignina hafa verið í gangi viðræður við heimamenn um breytingar á húsinu til þess að auðvelda aðra og fjölbreyttari nýtingu þess en er í dag. Reiknað er með að sú vinna haldi áfram. Málið hefur því verið til jákvæðrar skoðunar að undanförnu og stofnunin og ráðuneytið eru opin fyrir öllum góðum hugmyndum um nýtingu hússins.

Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda er Breiðdalshreppur einn þeirra brothættu byggða sem Byggðastofnun vinnur með. Á íbúafundi sem var haldinn þar fyrir skömmu kom fullt af hugmyndum fram og ýmsar tillögur. Áfram verður unnið með heimamönnum að þessum tillögum. Ein tillagan sem gæti farið inn í þann pott er með hvaða hætti væri hægt að koma þessu húsi í betri not og þá kannski undir yfirstjórn heimamanna. Ég vil líka fullvissa fyrirspyrjanda um góð áform Byggðastofnunar í því sambandi.

Það er enginn vafi á því að menn vilja gera það sem hægt er til þess að styðja þarna við þessa brothættu byggð með öllum ráðum sem hægt er að grípa til.