143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eign Byggðastofnunar á Breiðdalsvík.

134. mál
[16:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma hingað upp til að þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp og ítreka þá yfirlýsingu að áfram verður unnið með heimamönnum og kannað hvað hægt er að gera til að styrkja byggðina.

Það voru vissulega vonbrigði fyrir heimamenn — ég hef upplýsingar um það og hef heyrt frá þeim um það — að þeir kæmu ekki til álita hvað varðar þennan byggðapott sem við settum á laggirnar í þinginu í sumar til þess að styrkja meðal annars sjávarbyggðir til lengri tíma. Þar vantaði upp á að mati Byggðastofnunar að menn væru raunverulega að byggja upp nægilega mörg ársverk, þ.e. byggðin heima fyrir gat ekki komið með nægilega mikinn kvóta á móti til þess að hægt væri að byggja upp fiskvinnslu á svæðinu á þeim kvóta. Það þarf því að horfa til fleiri þátta og það verður gert. Byggðastofnun mun vinna að því áfram með heimamönnum. Ég vænti þess að einhverjar jákvæðar fréttir af því muni skila sér fyrr en seinna og mun sjálfur hafa auga með því að svo verði, en ég treysti Byggðastofnun fyllilega til góðra verka í þessu sambandi.