143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Árið 2012 var sett heildarlöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn og féllu þá úr gildi ýmis sérlög um viðkomandi stéttir. Það frumvarp var oft til umfjöllunar í þinginu og lagt fram á fleiri en einu þingi og um það var ágæt samstaða, enda um mikilvægar stéttir að ræða.

Heilbrigðisstarfsmenn bera mikla ábyrgð og þurfa sérstök leyfi frá landlækni til að geta stundað sérfræðistörf og þurfa leyfi til að reka eigin starfsstöðvar. Lögin ná til 33 starfsstétta og til að nefna þær fyrstu fimm sem taldar eru upp í lögunum eru það áfengis- og vímuvarnaráðgjafar, félagsráðgjafar, fótaaðgerðafræðingar, geislafræðingar og hjúkrunarfræðingar en alls eru heilbrigðisstéttirnar 33. Mjög fjölbreytt starfsemi fellur undir þessa löggjöf.

Læknar falla að sjálfsögðu undir hana og hafa haft áhyggjur af breytingum sem voru gerðar með þessari löggjöf sem takmarkar þann tíma sem læknar sem og aðrar heilbrigðisstéttir geta rekið eigin starfsstofu. Samkvæmt nýju lögunum þurfa læknar frá 70 ára aldri að sækja um áframhaldandi leyfi til landlæknis og fá þá leyfi til tveggja ára í senn en eftir 76 ára aldur er þeim ekki heimilt samkvæmt lögunum að reka eigin starfsstofu og geta ekki fengið leyfi til þess. Eins og ég segi, þó að lögin nái til allra starfsstétta hafa sérstaklega læknar bent á þetta og talið að þessi aldurstakmörk séu ekki í takti við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum og heldur ekki í Bretlandi eða Þýskalandi. Þá hefur Læknafélag Íslands ályktað um 26. gr. og óskað eftir að hún verði færð aftur til fyrri vegar.

Nú skal ég ekki fullyrða um það hvort fleiri starfsstéttir innan heilbrigðisstétta hafa tjáð sig um þetta. En það hefur líka komið fram, ef við tökum læknana sérstaklega fyrir, að frá árinu 2007 hefur dregið mjög úr starfsemi sérgreinalækna undir 40 ára aldri á eigin stofu en hún aukist að sama skapi hjá þeim sem eru yfir 70 ára aldri. Og nú eru fleiri og fleiri sem hallast að því að rýmka þurfi þau aldurstakmörk. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji ástæðu til þess að endurskoða 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn.