143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Ríkisútvarpið og heyrnarskertir.

194. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Það skal tekið fram í upphafi að óskað var eftir umsögn Ríkisútvarpsins við þessum hluta fyrirspurnarinnar, þ.e. um það sem snýr að því hvað hefur verið gert af hálfu Ríkisútvarpsins til þess að mæta þeim verkefnum sem hv. þingmaður gat hér um. Ég fékk upplýsingar frá Ríkisútvarpinu um að Ríkisútvarpið hafi hafið samtímatextun á aðalfréttatíma sjónvarpsins 13. mars síðastliðinn. Textinn birtist á síðu 888 í textavarpinu. Ríkisútvarpið átti sjálft frumkvæði að textunarátakinu og gerði það í samvinnu við Heyrnarhjálp og Félag heyrnarskertra. Sú textun hófst sama dag og ný lög um Ríkisútvarpið tóku gildi.

Það er rétt að benda á að allir umræðuþættir í sjónvarpinu í aðdraganda alþingiskosninganna 2013 voru textaðir og lokaumræðurnar voru sendar út með táknmálstúlkun.

Það er rétt að geta þess að allir forunnir þættir eru textaðir á síðu 888.

Með uppfærslu innviða á netinu og á ruv.is og þegar alþjóðlegir staðlar verða samrýmdir er stefnt að því að textinn á síðu 888 verði jafnframt aðgengilegur í vefútsendingum.

Síðan er spurt að því hvort málið verði tekið upp við næstu endurskoðun þjónustusamnings við Ríkisútvarpið. Þá er það til að taka að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2013 segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Í samningi ráðherra við Ríkisútvarpið, sbr. 4. mgr. 2. gr., skal kveðið á um hvernig best verði tryggt aðgengi og þjónusta við þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.“

Hér er með öðrum orðum lögbundið að fjallað skal um þjónustu Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og aðra sem ekki geta nýtt sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu í samningi um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Samningurinn er nú í heild sinni til endurskoðunar eins og mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða nr. VI með lögum nr. 23/2013.

Áfram verður lögð á það áhersla af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að bæta enn frekar þjónustu við heyrnarskerta eftir því sem tækninni fleygir fram og stofnkostnaður vegna búnaðar lækkar.

Ég vil taka fram, og ég tel að hv. þingmaður sé mér sammála, að þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta hefur batnað á undanförnum árum.

Í þriðja lagi er spurt að því hvort eitthvað hindri að ákvæðinu sé fylgt í hvívetna. Þá er rétt að taka það til, virðulegi forseti, að stefnt er að því af hálfu Ríkisútvarpsins að seinni fréttir sjónvarpsins og Kastljós verði textað á næstu missirum. Það eru fyrst og fremst rittúlkar og máltæknibúnaður sem skortir enn til að gera stofnuninni kleift að samtímatexta allt sem fer fram í beinni útsendingu, en því miður, og það er rétt að taka það fram, er þar vissulega líka um fjárskort að ræða.