143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Leiðrétting ríkisstjórnarinnar er mjög merk og raunhæf tillaga. Báðir stjórnarflokkarnir lögðu áherslu á skuldir heimilanna í kosningabaráttunni en með nokkuð mismunandi hætti. Hugmyndir eða leiðir hafa nú verið samtvinnaðar í snjallri lausn.

Þetta eru heildstæðar efnahagslegar hugmyndir sem koma til með að bæta hag langflestra heimila í landinu, um 80%. Þess vegna hefði mátt búast við að þingheimur allur hefði fagnað en sumir kjósa að vera frekar með getsakir, útúrsnúninga og rangfærslur og gera jafnvel lítið úr því að fjölskylda geti fengið niðurfærslu er jafngildir algengustu árslaunum.

Menn verða að hafa í huga að ríkisstjórnarflokkarnir voru kosnir í vor ekki síst út á hugmyndir þeirra til bjargar skuldsettum heimilum, heimilum sem lentu í alvarlegum forsendubresti. Þau loforð er verið að uppfylla með vel fram settri og snjallri sanngirnislausn.

Það eru undarlegar vangaveltur hjá einstaka stjórnmálamönnum að það eigi að gera eitthvað allt annað við fjármagnið sem ríkisstjórnin hyggst nýta til höfuðstólslækkunar húsnæðislána.

Fólkið í landinu sagði sitt í kosningunum. Ég tek heils hugar undir og tel raunar afar mikilvægt að minni hlutinn hér á Alþingi fái faglega og góða kynningu á leiðréttingartillögunum. Málið var tekið fyrir á fundi þingflokksformanna í gær og eðli máls samkvæmt var strax eftir fundinn gengið í málin af formönnum þingflokka stjórnarflokkanna, enda eiga þingflokksformannafundir sem forseti stýrir að leiða til lykta mál er varða skipulagningu þingstarfa. Leiksýningin sem fór fram í þingsalnum í gær undir liðnum um fundarstjórn forseta var því óþörf.