143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Til hamingju með daginn. Í dag er alþjóðadagur fatlaðs fólks á vegum Sameinuðu þjóðanna. Við sem hér störfum höfum orðið þess heiðurs aðnjótandi á sumar- og haustþingi að starfa með Freyju Haraldsdóttur, baráttukonu fyrir mannréttindum og varaþingmanni okkar í Bjartri framtíð, sem hefur getað sinnt þessu starfi vegna þess að hún nýtur notendastýrðrar persónulegrar þjónustu, þjónustu sem gerir henni kleift að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Í tilefni þessa dags ritaði hún lítinn pistil á Facebook-síðu sína sem mig langar að lesa fyrir ykkur, með leyfi forseta:

„Ég elska lífið mitt.

Ég elska ekki að það sé hversdagslegt að búa við fordóma, útilokun, valdaleysi og önnur mannréttindabrot.

Ég mundi aldrei tíma því að hætta að vera fötluð.

Mér finnst að ófatlað valdamikið fólk eigi að tíma því að láta af ást sinni á fullkomleika sínum, valdinu sem það hefur yfir mér og þeim aðgerðum sem það fer í sem brýtur mannréttindi mín.

Hversdagslega mismununin breytist ekki með því að breyta mér.

Hversdagslega mismununin breytist með því að breyta samfélaginu.

Mikilvægasta skrefið að því að breyta samfélaginu er að ljúka við fullgildingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Það skref er ekki töfralausn sem leysir allan vanda heldur er það mér mikilvægt vegna þess að það virðist þurfa að standa í lögum beinum orðum að ég sé jafn mikilvæg og fólk sem er ekki fatlað því hingað til, þegar ég hef haldið því fram af festu, hika margir ekki við að stimpla mig sem mannréttindafrekju og hryðjuverkasinna, og það dregur oft úr mér allan kraft og sviptir mig sjálfsvirðingu minni.

Ég nenni því ekki meira. Því ég vil geta elskað lífið mitt í friði og sýnt sjálfri mér virðingu án þess að þurfa að sannfæra fólk um réttmæti þess. Það eru mannréttindi sem allir eiga að búa við.“

Virðulegi forseti. Ég skora hér með á okkur, fulltrúa á löggjafarþinginu, að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja þessum þjóðfélagshópi full mannréttindi og möguleika til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og tryggjum þeim um leið virka aðild að ákvarðanatöku um stefnumið og áætlanir, m.a. ákvarðanatöku sem varðar það sjálft með beinum hætti.