143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Eitt helsta hlutverk stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna en nú horfum við upp á það að brotist hefur verið inn í gagnaver símafyrirtækis hér á landi og upplýsingum sem snerta friðhelgi einkalífs stolið þaðan í gríðarlegum mæli og þær settar á netið fyrir allra augum. Ef ástandið er svona slæmt hjá þessu fyrirtæki, sem geymir viðkvæmar persónuupplýsingar, bendir það því miður eindregið til að slík sé raunin víðar í samfélaginu.

Hvað með sjúkraskrár, lyfjagátt, bankareikninga? Ég mundi hafa verulegar áhyggjur af því, virðulegi forseti, hvort þær persónuupplýsingar væru nógu vel geymdar. Slíkt ástand er algjörlega óásættanlegt í samfélaginu og ég skora á stjórnvöld að taka til sinna ráða strax.

Í sumar vakti ég athygli á því á Alþingi að Norðmenn hafa komið sér upp sérstökum nether. Ég hef heimsótt þá herstöð. Norsk stjórnvöld hafa gert sér grein fyrir þeirri gríðarlegu ábyrgð sem þau hafa gagnvart einstaklingunum og samfélaginu þegar kemur að gagnaöryggi og persónuvernd. Ég legg enn og aftur til að við leitum til Norðmanna eftir hjálp og leiðbeiningu í þessum efnum. Þessi mál, þ.e. persónuvernd og gagnaöryggismál, eru að verða svo stór þáttur í öryggismálum þjóðarinnar að nauðsynlegt er að vakna til lífsins í eitt skipti fyrir öll og láta atburði helgarinnar vera okkur öllum alvarleg viðvörun og að stjórnvöld grípi fast í taumana.