143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Laugardagsins 30. nóvember verður væntanlega minnst lengi vegna þess að þá komu fram tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfærslu heimila. Tillögunum hefur yfirleitt verið vel tekið. Einstaka geðvonskuleg rödd heyrðist hljóma um flugeldasýningu þegar þetta var kynnt um helgina, en við látum okkur slíkt í léttu rúmi liggja. Aðalatriðið er að þeir sem þurfa á að halda njóti þeirra tillagna og þeirra frumvarpa sem munu fylgja í framhaldinu.

Ég vil nota tækifærið og hvetja alla sem eru í þeim aðstæðum að þeir gætu haft gagn af tillögunum að kynna sér þær mjög gaumgæfilega. Skýrsla samráðshópsins var gefin út á 28 blaðsíðum, er ekki þykk en mjög innihaldsrík. Ég hvet alla til að kynna sér hvaða rétt þeir kynnu að eiga samkvæmt tillögunum og vera vel vakandi yfir því að sá réttur hverfi þeim ekki úr höndum. Þessi aðgerð er almenn, hún er byggð á réttlæti og sanngirni. Hún gagnast miklum meiri hluta íslenskra heimila, hún er viðspyrna. Hún er fyrsta skrefið í þá átt að auka hér efnahagslegan stöðugleika. Laugardagurinn 30. nóvember 2013 er dagurinn þegar vonin lifnaði aftur á íslenskum heimilum.