143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarskipunarlögum er gerð krafa um að meta skuli áhrif lagafrumvarpa á ríkissjóð en það er alls ekki nóg. Lög sem Alþingi setur geta einnig haft verulega miklar afleiðingar fyrir hag heimila, afkomu fyrirtækja og útkomu þjóðarbúsins í heild sinni. Þær afleiðingar þarf líka að meta og kynna svo þingmenn geti tekið upplýstar og vandaðar ákvarðanir.

Nú er málum þannig háttað að gjaldeyrisforði þjóðarinnar er allur fenginn að láni og því full ástæða til að meta áhrif nýrra frumvarpa á vöruskiptajöfnuð þjóðarbúsins og gjaldeyrisforða. Fyrir þinginu liggja frumvörp sem geta leitt til aukins gjaldeyrisútstreymis. Þetta eru frumvörp sem fjalla til dæmis um niðurgreiðslur eða styrki til íblöndunar á eldsneyti, kaupa á rafbílum og varmadælum. Allt eru þetta góðir hlutir og gagnlegir, eins og fram kemur í frumvörpunum. Ég mundi styðja öll frumvörpin heils hugar ef þjóðarbúið ætti þann gjaldeyri sem til þarf, en svo er ekki í dag og sá dagur mun seint koma nema Alþingi sýni ráðdeild í ákvörðunum sínum. Svo Alþingi geti tekið upplýstar og vandaðar ákvarðanir legg ég til að efnahagsleg áhrif lagafrumvarpa verði metin og þá er ekki nóg að meta eingöngu áhrif á ríkissjóð heldur þarf einnig að meta áhrif þeirra á hag heimila, atvinnulífs og viðskiptajöfnuð þjóðarbúsins.