143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það kennir nokkurra grasa í þessu frumvarpi og ég held að það sé ljóst að sum ákvæðin sem þar er verið að taka á eru klárlega til bóta og skýra skattframkvæmdina eða skjóta traustari lagastoðum undir hana. Þannig má segja, um þann hluta frumvarpsins sem snýr að skattlagningu afleiðusamninga, að það kunni að vera álitamál hvaða leið er þar valin, sú sem hefur orðið niðurstaðan á grundvelli túlkunar og skattframkvæmdar, að meðhöndla tekjur af afleiðusamningum sem vaxtatekjur, eða fara þá leið að færa þetta yfir í að vera meðhöndlað sem söluhagnað og tap, en aðalatriðið er að standa þarf skýr túlkun á því í lögum hvernig með skuli farið.

Nú skal ég ekki segja um það hvort þetta hafi einhver afleidd áhrif í formi þess að þetta geri það fýsilegra eða síður fýsilegra að standa í slíkum viðskiptum, upp og ofan hvort menn hafa nú af því mikinn ágóða eins og kunnugt er og Íslendingar ættu að þekkja, að minnsta kosti íslenskir lífeyrissjóðir. En aðalatriðið er í þessu tilviki, held ég, sem snýr að skattalögunum, að framkvæmdin sé skýr.

Varðandi í öðru lagi skattskyldu vatns- og hitaveitna, sem eru þá komin inn í félög, þá geri ég í sjálfu sér ekki á þessu stigi athugasemdir við að heimilt sé að byggja þar á skattleysi ef um skýran og algjörlega fortakslausan bókhaldslegan aðskilnað er að ræða. Það verður þó að sjálfsögðu að vera algjörlega á hreinu að ekki séu að opnast neinar hjáleiðir sem hafi í för með sér freistingar fyrir viðkomandi aðila, sem eru þá orðnir með samsettan rekstur, til að færa kostnað yfir á það sem ekki ber skattskyldu o.s.frv., þannig að það þarf að ganga varlega um þær gleðinnar dyr, mundi ég segja.

Ég vil síðan gera að umtalsefni þriðja liðinn hér í frumvarpinu, sem snýr að skattlagningu arðsúthlutunar til starfandi hluthafa í félögum. Hér leggur hæstv. ráðherra til að felld sé á brott í einu lagi regla sem kom inn í skattalög 2009, liður í mun stærri aðgerðum sem þá var ráðist í til að taka á vandamálum sem ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að verða að viðurkenna að voru til staðar. Það voru allt of frjálslegar reglur sem heimiluðu mönnum að taka mikla fjármuni út úr félögum sínum í formi arðgreiðslna og reikna sér tiltölulega hóflegt endurgjald sem laun. Að mínu mati var þetta í miklu ólagi eins og framkvæmdin var árin á undan sem leiddi meðal annars til umtalsverðs tekjutaps hjá ríki en þó sérstaklega kannski sveitarfélögum sem fóru að missa útsvarstekjur í stórum stíl af því að það hentaði mönnum að færa rekstur sinn yfir í einkahlutafélög jafnvel þó að um hreina einyrkjastarfsemi væri að ræða. Af einhverjum undarlegum ástæðum hurfu útsvarstekjur í stórum stíl, t.d. í sjávarplássum, þegar trillurnar urðu einkahlutafélög hver á fætur annarri og allt í einu gaf reksturinn svona miklu minna af sér en áður að viðkomandi fór að greiða vinnukonuútsvar.

Þetta er bara veruleikinn eins og hann var og það þurfti að taka á og stoppa upp í þetta mál. Sveitarfélögin í landinu höfðu meðal annars lengi óskað eftir því árin á undan að það væri gert. Hvort þessi regla hins vegar, 20% eða 50% reglan, var besta aðferðin til þess, um það má að sjálfsögðu deila. En það hlýtur nú að vera einhver millivegur í því að taka hana til skoðunar og eftir atvikum lagfæra hana og hins að fella hana brott í heilu lagi. Það kemur mér svolítið á óvart að það skuli lagt til hér án þess að ráðuneytið hafi þá fram að færa aðrar tillögur á móti fyrir utan þá einu að segja að samhliða verði hafist handa um endurskoðun á reglum um reiknað endurgjald. Og hvenær kemur það og hvaða breytingar á þeim reglum eiga þá að koma til til þess að að minnsta kosti vera á varðbergi gagnvart því að hætturnar skjóti ekki aftur upp kollinum í þessum efnum?

Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega í því sambandi hættuna á tekjutapi ríkis og sveitarfélaga og það er vel. Reglunum um reiknað endurgjald var breytt ítrekað ef ég man rétt bæði á árinu 2009 og sennilega aftur ári eða tveimur árum síðar til þess að reyna að færa uppgjörið nær því sem eðlilegt gæti talist. En ég er ekki viss um að það eitt og sér dugi ef heimildir manna til þess að greiða sér arð út úr einkahlutafélögum utan endis eru nánast ótakmarkaðar. Það er óeðlilegt. Það er óeðlileg samkeppnisstaða og það er óeðlileg skattframkvæmd.

Vissulega munar um það að fjármagnstekjuskattur að frádregnum frítekjumörkum er núna 20% í staðinn fyrir 10, eins og hann var á þessum árum. En menn geta rétt ímyndað sér hvernig þetta var áður þegar eingöngu 10% skattur var lagður á arðgreiðslur út úr þessum félögum og það var tiltölulega óheft. Þennan lið, virðulegi forseti, áskil ég mér því rétt til að skoða miklu betur og kemur mér satt best að segja á óvart að sjá þetta lagt til svona.

Ég þekki vel til gagnrýninnar, búinn að hlusta mikið á þann söng og í einhverjum mæli var nú reynt að koma til móts við málefnaleg sjónarmið í þeim efnum með endurskoðun á þessum ákvæðum frá því sem var fyrst eftir þau komu til sögunnar. En það er auðvitað svolítið sláandi og minnir mann á gamla tíma að ein af röksemdum ráðuneytisins, eða hæstv. ráðherra í greinargerð með frumvarpi sínu hér á bls. 11, er einfaldlega, með leyfi forseta:

„Skattlagning arðsúthlutunar til starfandi hluthafa. Tillögurnar miða að því að fella brott sérreglu sem hefur verið mikið gagnrýnd af Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.“ Punktur. Þarna er ekkert minnst á sveitarfélögin eða aðra aðila sem kynnu að hafa önnur sjónarmið í þessum efnum. Það virðist vera fullnægjandi rökstuðningur og þarf ekki frekari vitna við að gagnrýni hefur komið frá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands. — Punktur. Heyra má ég erkibiskups boðskap.

Varðandi skattlagningu samruna yfir landamæri geri ég ekki lítið úr því að sjálfsagt verðum við að mæta þeim sjónarmiðum sem um það hafa komið fram hjá ESA. Ég sé að reynt er að gera það með því að passa engu að síður upp á fortakslausan rétt okkar til að skattleggja hagnað og ná honum sem skattandlagi áður en hann hverfur úr landinu í samruna. En hér er gengið það langt að boðið er upp á allt að fimm ára greiðslufrestun á skattinum. Og svona vegna þess að það er nú dálítið ríflegt og félag er að fara úr landi að þá koma þarna inn ákvæði um, ef ég tók rétt eftir, að heimilt sé að láta menn setja tryggingar fyrir greiðslunni. Ég spyr einfaldlega: Þarf þetta að vera svona ríflegt? Nú hefur kannski ekki reynt á það hvað ESA telur að lágmarki að þurfi að vera til þess að of stífar reglur um samtímasköttun óskattaðra verðmæta torveldi ekki slíkan samruna eða geri hann óþarflega þvingaðan, en það má nú dálítið á milli vera hvort menn hefðu eitt til tvö ár þá til að skila þeim skatti eða fá allt að fimm ára greiðslufrest á honum. Það finnst mér nokkuð ríflegt og sé enga ástæðu til þess nema ef mér verður sýnt fram á að minna muni ekki duga til að mæta þessum athugasemdum ESA.

Þar er, ef marka má neðanmálsgrein í frumvarpinu, fyrst og fremst talað um að Ísland þurfi að beita vægari úrræðum til að vernda skattlagningarrétt sinn en hingað til hefur verið gert, þ.e. með því að krefjast skattgreiðslunnar strax. En verulega mikill munur er á því að bæta þar árs eða tveggja ára greiðslufresti við og hinu að fara með hann upp í fimm ár, eftir atvikum eitthvað sem ég teldi rétt að líta betur á í nefnd.

Varðandi reglurnar um milliskattlagningu þá fagna ég þeim. Ég held að það sé alveg tvímælalaust til verulegra bóta að styrkja grundvöll skattframkvæmdarinnar með því að skattyfirvöld fái skýrar heimildir til að beita milliverðlagningarreglum og armslengdarsjónarmiðum í þeim efnum ef ástæða er til að ætla að verðlagningu sé eitthvað undarlega háttað milli tengdra aðila. Að því leyti til tel ég tvímælalaust að þarna séu lagðar til breytingar í rétta átt og meðal annars byggt á milliverðlagningarreglum OECD.

Það leiðir mig að öðru, sem ég vildi þá gjarnan spyrja hæstv. fjármálaráðherra um í leiðinni, og það eru reglur um þunna eiginfjármögnun. Nú hefur hv. þm. Katrín Jakobsdóttir flutt hér, að ég tel mjög vel útfært frumvarp um það mál sem lögð var talsverð vinna í að skoða og er til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd. Það er stutt leiðin frá þessum milliverðlagningarsjónarmiðum og prinsippum og yfir í einmitt reglur um þunna eiginfjármögnun sem má kalla vissar milliverðlagningarreglur milli móðurfélags og dótturfélags, t.d. erlends móðurfyrirtækis og innlends dótturfélags, hvað varðar þá viðskipti með fjármuni, þar sem þunnu eiginfjárreglurnar mundu koma á margan hátt sambærilega niður og milliverðlagningarreglur, tryggja að menn séu ekki að nota óeðlilega verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila eða innan samstæðna til að flytja hagnað með óeðlilegum hætti, koma honum undan skatti, og ég tala nú ekki um færa hagnað frá einu landi til annars, sem að sjálfsögðu á að taka á og stemma stigu við. Og sem betur fer hefur orðið heilmikil og jákvæð þróun í umræðum um það mál, það er ekki lengur guðlast að tala um skattundanskot og skattsniðgöngur og skattaskjól eins og var hér á árum áður þegar þetta átti allt að vera sem allra frjálsast.

Nú ber meira að segja svo við að það að takast á við skaðlega skattasamkeppni, skattsniðgöngur og að loka skattaskjólum er orðið að aðalumræðuefni á G7-fundum og hefði einhver látið segja sér það tvisvar. Það hefur þó kreppan kennt mönnum og erfiðleikarnir sem í kjölfarið hafa fylgt og meðal annars hinar stórfelldu skattsniðgöngur eða hin stórfelldu skattundanskot sem liðist hafa í skjóli skattaskjólanna og ónefnd öfl stóðu alltaf vörð um, Bretland, Bandaríkin, svo maður tali ekki um Lúxemborg eða aðra slíka aðila, að þeir komast ekki lengur upp með það að hefta alla framþróun alþjóðasamfélagsins á þessu sviði. OECD hefur lengi unnið merkt starf að þessu leyti og má hrósa þeirri stofnun fyrir það. Hvað sem hugmyndafræðinni þar á bæ líður hafa menn þó innan OECD um langt árabil haldið uppi merkri viðleitni til að reyna að stöðva skattsniðgöngu og skattundanskot og stoppa í skattaskjól. En ekki komst skriður á þau mál fyrr en efnahagsþrengingarnar og hrunin á Vesturlöndum höfðu kennt mönnum ákveðna lexíu í þeim efnum. Þá sneru ákveðin öfl við blaðinu, sem fram að þessu höfðu alltaf hindrað alþjóðasamstarf í þessum efnum.

Við höfum enn þá verk að vinna, við Íslendingar, og eigum eftir að fara í gegnum hluta löggjafarinnar. Þó að sumu hafi verið kippt í liðinn á undanförnum árum eru ýmsir hlutir eftir enn þá og þar á meðal, og ekki síst að ég tel, að reglur um þunna eiginfjármögnun þurfa endilega að komast sem fyrst inn í íslensk skattalög, og þær fara vel saman með þeim ákvæðum sem hér er verið að tala um um milliverðlagningu. Ég vil því minna sérstaklega á það mál hér og væri gaman að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur nokkuð við það að athuga eða er ekki sammála því að efnahags- og viðskiptanefnd, sem verður þá með bæði málin til umfjöllunar á sama tíma, geti skoðað það að sameina þau í eitt frumvarp eftir atvikum eða að hvort tveggja fái afgreiðslu.

Herra forseti. Þetta voru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri hér við 1. umr. þessa máls og geymi mér annað þangað til málið hefur gengið til nefndar, þar sem ég á kost á því að takast á við það.