143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður segir varðandi markmiðið. Það er hins vegar spurning hvort það reynist jafn auðvelt í framkvæmd að innleiða slíkar reglur án þess að maður geri meira en að ná markmiðinu, heldur sé maður kannski farinn að teygja sig svo langt að það geti valdið einhverju tjóni. Þá horfi ég til þess hversu aðlaðandi fjárfestingarkostur landið okkar er. Ég tek hins vegar undir að við eigum ekki alfarið að byggja á því að vera með einhverjar sérreglur hér á Íslandi heldur eigum við sem mest að miða við að vera með samkeppnishæft skattumhverfi og að við byggjum ekki upp atvinnulífið á skattalegum undanþágum frá hinu alþjóðlega kerfi.

Mér verður til dæmis hugsað til þess ef dótturfélag á Íslandi lendir í fjárhagslegum erfiðleikum og stendur frammi fyrir því að þörf er á viðbótarfjármagni til að halda rekstrinum úti, þá getur á það reynt, sé móðurfélagið fjársterkt, að það reynist fýsilegasti kosturinn að leggja dótturfélaginu til aukið fjármagn tímabundið sem móðurfélagið ætlar þá að endurheimta þegar það birtir til í rekstri dótturfélagsins. Á sama tíma kann að liggja fyrir að fjármögnun á alþjóðlegum mörkuðum eða jafnvel hér innan lands hefði verið mjög dýr. Ef það var eini valkosturinn við að fá fjármagn frá móðurfélaginu kunna að skapast þær aðstæður að menn standi frammi fyrir því að þurfa að loka rekstrinum. Við viljum ekki skapa aðstæður í skattalögunum sem kalla fram slík örþrifaráð þegar harðnar á dalnum hjá dótturfélögum erlendra félaga í hvaða starfsemi sem það kann að vera, en ég get tekið undir (Forseti hringir.) meginsjónarmið hv. þingmanns um að menn eiga ekki að komast upp með (Forseti hringir.) einhverjar æfingar á efnahagsreikningi sínum í þeim eina tilgangi að losna undan skattskyldu á Íslandi.