143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[15:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vona að þetta frumvarp leiði af sér betri neytendavernd á Íslandi en ég hef vissa athugasemd við það og mun greiða atkvæði mitt gegn því. Sá aðili sem hefur staðið sig hvað best þegar kemur að neytendavernd á fjármálamarkaði, neytendavernd á húsnæðislánum landsmanna, er talsmaður neytenda. Hann fór fram á lögbann til að tryggja heildarhagsmuni neytenda þegar kom að innheimtu á lánum sem reyndust síðan ólögmæt. Þegar verið er að fella það embætti inn í annað embætti set ég strax spurningarmerki við það. Ég segi aftur að ég vona að þetta leiði til góðs en þá skulum við líka horfa til þess að sú nýja alhliða neytendaverndarstofnun, sem þarna verður þá til, eitt embætti á vegum hins opinbera, sinni þá hlutverkunum vel og að við, löggjafinn, veitum þá Neytendastofu (Forseti hringir.) betri heimildir. Ekki hefur verið innleidd að fullu neytendaverndartilskipun frá Evrópusambandinu sem átti að vera innleidd að fullu 1994. Þetta þurfum við virkilega að taka til skoðunar.