143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sá mig tilneyddan að taka þátt í þessari umræðu vegna ummæla hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um stutta setu mína sem varamanns í fjárlaganefnd.

Fyrir það fyrsta finnst mér það mjög ósmekklegt af hv. þingmanni. Þau orð sem hún viðhafði áðan koma þó ekki á óvart. Það er alveg rétt, það lá svo mikið á við fjáraukalagaumræðuna að hv. formaður boðaði fund á fimmtudag og föstudag og ég andmælti því að fundur yrði á sama tíma og þingfundur stendur yfir — sem er ekki hefð, virðulegi forseti, það er ekki hefð fyrir því. (Gripið fram í.) Það er heldur ekki rétt sem kom fram á fundi að það væru sérstök ákvæði í þingsköpum fyrir fjárlaganefnd eins og þar kom fram sem var svo borið til baka. Þegar búið var að reka það ofan í viðkomandi þingmann var því breytt í hefð og venju. En það er heldur ekki hefð og venja fyrir því.

Fundur á fimmtudag — var hann haldinn? Nei. Fundur á föstudag — var hann haldinn? Nei. Var haldinn hinn mikilvægi fundur þar sem nokkrir fulltrúar af landsbyggðinni voru beðnir um að koma suður á sunnudagskvöld til að hefja fund (Forseti hringir.) á mánudagsmorgun kl. 9? Nei. Fundurinn hófst í gær kl. 17.30 og stóð í tvo tíma.

Virðulegi forseti. Vegna ræðu (Forseti hringir.) hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur datt mér í hug: Skítur nú sú hænan sem engan hefur rassinn.