143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að mótmæla orðum hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins um að hér sé eitthvert leikrit sett af stað. Það sem hér hefur komið fram eru alveg réttmæt orð og fólk hefur auðvitað áhyggjur af því hvernig málum vindur fram.

Ég mótmæli því líka sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttur, sagði áðan um að við þyrftum að góna framan í hvert annað í fjárlaganefnd vegna efnisleysis. Það er ekki þannig. Á fundinn sem frestað var á mánudagsmorguninn voru boðuð fjögur eða fimm ráðuneyti. Það kom eitt síðdegis, eins og kom fram áðan, þannig að það er ekki eins og um málefnafæð sé að ræða.

Umræðan hefur snúist um hvort þingfundir séu nægilega margir. Það er ekki upp á marga daga að hlaupa fyrir áramótin. Síðan er hótað kvöldfundum þegar fundur fellur niður dag eftir dag í fjárlaganefnd. Mér finnst bara ekki í lagi að gera svona.

Það er enginn að telja eftir sér að vinna. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að það sé skipulag, að við vitum hvernig það verður og að það dugi til umfjöllunar um þessi mál.

Svo vil ég líka mótmæla, því að það var athugað á nefndasviði. Það er ekki vani (Forseti hringir.) að haldnir séu fundir í fjárlaganefnd á þingfundatíma (Forseti hringir.) og það er búið að gá að því langt aftur í tímann.