143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

þingstörfin fram undan.

[15:35]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta en ég tel fundarstjórnina ágæta. Ég tel líka að fundarstjórn forseta sé góð þegar við höldum þingflokksformannafundi. Við héldum einn slíkan í gær og þar var farið yfir þessi mál. Ég er ný, eins og fleiri sem hafa komið í pontu, og undrast oft bæði orð og æði á þingi.

Ég hefði talið að fyrst við höldum slíka fundi í hverri viku þar sem við förum yfir starfsemi og skipulag þingsins mundi hver og einn þingflokksformaður fara inn í sinn flokk og skýra frá því sem farið hefði fram á þingflokksformannafundinum, hvað við ætluðum að gera í vikunni og hvernig við sæjum þetta. Við í Framsóknarflokknum höfum þannig vinnubrögð að allir séu meðvitaðir. Þess vegna undrast ég að fólk þurfi að koma hér upp dag eftir dag í þingsal, endurtaka það sem fer fram á slíkum skipulögðum fundum og hefja hér málarekstur hinn mesta.

Mig langar líka að segja að ef ég skil rétt er framlagning (Forseti hringir.) fjáraukalagafrumvarpsins ekki á ábyrgð fjárlaganefndar. Það dróst, en það er hvorki á ábyrgð fjárlaganefndarinnar sjálfrar né formanns þess. Ég biðst undan þessu eilífa (Forseti hringir.) ati þingheims gagnvart formanni fjárlaganefndar.