143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tollalög.

137. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (úthlutun tollkvóta).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Almar Guðmundsson og Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Guðmund Sigurðsson og Birgi Óla Einarsson frá Samkeppniseftirlitinu og fulltrúa frá Samtökum verslunar og þjónustu, Lárus Ólafsson. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samkeppniseftirlitinu og Samtökum verslunar og þjónustu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 12. gr. tollalaga. Greininni var síðast breytt með lögum nr. 160/2012, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum. Ákveðnir vankantar hafa komið í ljós eftir að farið var að vinna eftir ákvæðinu og því er frumvarp þetta lagt fram til að lagfæra það hvernig tollurinn er reiknaður út.

Í 3. mgr. 12. gr. tollalaga er kveðið á um að tollur á vörur sem eru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem eru tilgreindir í viðaukum IVA og B við lögin skuli lagður á sem magntollur, þ.e. ákveðið verð á hvert kíló. Tollurinn skal samkvæmt greininni vera mismunur ríkjandi heildsöluverðs, samkvæmt upplýsingum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum, og innflutningsverðs samkvæmt meðaltali tollverðs síðustu sex mánaða.

Ráðherra úthlutar tollkvótum samkvæmt viðaukum IVA og B, sbr. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þar er einnig kveðið á um að umræddum tollkvótum skuli úthlutað þegar framboð viðkomandi vöru sé ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þyki að það verði ekki nægjanlegt næstu þrjá mánuði.

Fram kemur í frumvarpinu að við beitingu 3. mgr. 12. gr. laganna, sbr. lög nr. 160/2012, hafi komið í ljós að í sumum tilfellum verði tollur á dýrari vörur umtalsvert hærri en á ódýrari vörur. Því er lagt til með frumvarpi þessu að bætt verði úr því hvernig tollverðið er reiknað og sett ákveðið hámark sem magntollur innan tollkvóta skal bera úr viðauka IVA og B. Lagt er til að við útreikning á tollinum skuli tekið tillit til heildsöluálagningar, þ.e. að heildsöluálagning bætist við þá fjárhæð sem dregst frá ríkjandi heildsöluverði þegar tollurinn er reiknaður út. Jafnframt er lagt til að við greinina bætist málsliður sem kveði á um að magntollur skuli þó ekki vera hærri en 45% af almennum magntolli samkvæmt tollskrá.

Tollum skv. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er úthlutað af ráðherra að fengnum tillögum nefndar skv. 87. gr. sömu laga. Nefndin samanstendur af þremur mönnum og er í 2. mgr. 87. gr. laganna kveðið á um að hún geri tillögur til ráðherra um ákveðin atriði, þ.m.t. um úthlutun tollkvóta skv. 65. gr. A laganna. Áður en nefndin gerir tillögur skv. 2. mgr. 87. gr. skal hún senda þær til umsagnar Bændasamtaka Íslands, Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu og til Neytendasamtakanna.

Þáverandi atvinnuveganefnd lagði framangreint umsagnarferli til í breytingartillögu við það frumvarp sem varð að lögum nr. 160/2012. Í nefndaráliti kemur fram um breytingartillöguna að þingnefndinni hefðu borist athugasemdir um störf ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, m.a. um að ráðgjafarnefndin hefði ekki leitað upplýsinga hjá hagsmunasamtökum í málaflokknum og því hefði verið dregið í efa að ráðleggingar hennar byggðust að öllu leyti á fullnægjandi upplýsingum hverju sinni. Einnig hefði komið fram í umsögnum um málið að mikilvægt væri talið að rétt yrði staðið að upplýsingaöflun.

Atvinnuveganefnd tekur undir framangreint og hvetur til þess að starfi ráðgjafarnefndarinnar verði komið í fastara form. Mælst er til þess að nefndin safni upplýsingum saman með kerfisbundnum hætti og þær upplýsingar verði notaðar þegar tollkvótum er úthlutað skv. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Nefndin leggur til breytingu:

Á undan orðunum „að viðbættri“ í c-lið 1. gr. komi: og.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur að öðru leyti til að frumvarpið verði samþykkt með þessari breytingu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.