143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að fylgja aðeins eftir þeim fyrirvara sem fulltrúi þingflokks Vinstri grænna í atvinnuveganefnd hefur á málinu og gerði grein fyrir í nefndarálitinu, en hv. þingmaður er fjarstaddur sökum ófærðar og erfiðleika í flugi.

Fyrirvarinn lýtur að þeirri staðreynd — og segja má að hann sé annars vegar sögulegs og pólitísks eðlis en hins vegar mjög praktískur — að þegar raforkutilskipunin var innleidd á Íslandi var gengið lengra en til þurfti og í rauninni er málið verra en það. Í fyrsta lagi var ekkert látið á það reyna hvort Ísland gæti fengið, sökum smæðar síns markaðar og af þeirri staðreynd að hér er lokað orkukerfi og ekki tengt við neina aðra, einhvers konar undanþágu, varanlega undanþágu eða sérmeðhöndlun eins og komið hefur á daginn að nokkur raforkukerfi í Evrópu hafa fengið. Þáverandi ráðamenn héldu því fram að slíkt væri ómögulegt og þess væru engin dæmi, sem reyndist rangt. Í öðru lagi var við innleiðinguna gengið lengra en þurfti með því að fyrirskipa efnisleg uppskipti fyrirtækjanna í staðinn fyrir að láta nægja bókhaldslegan aðskilnað eins og ýmis Evrópusambandsríki hafa látið duga hjá sér.

Við sitjum uppi með þetta vandamál enn þann dag í dag. Óumdeilt er að innleiðing raforkutilskipunarinnar varð til þess að hækka hér raforkuverð umtalsvert. Fyrir því fundu menn mjög árin á eftir. Ég hygg að allir kannist við það hvernig tónninn var í mörgum þolendum þeirrar innleiðingar árin upp úr aldamótunum.

Orkuveita Reykjavíkur hafði síðan verið í þeim hópi, og var að síðustu ein eftir, af stóru orkufyrirtækjunum sem hafði fengið framlengdar undanþágur til að þurfa ekki að ráðast í þessa uppskiptingu. Þegar hrunið varð og Orkuveita Reykjavíkur með miklar erlendar skuldir var í afar erfiðri stöðu leiddi það af sjálfu sér að óhyggilegt var að hrófla við fyrirtækinu að því leyti. Það átti nóg með sig, bæði að verjast því að vextir yrðu hækkaðir á lánum, eða þau jafnvel gjaldfelld, og eins stóð fyrirtækið á árunum eftir hrunið, sérstaklega árið 2009 og inn á árið 2010, í erfiðri baráttu við að ljúka fjármögnun á þáverandi fjárfestingum sínum sem var lokaáfangi í byggingu Hellisheiðarvirkjunar.

Stjórnvöld voru fyrirtækinu eins hjálpleg og þau gátu í þeirri glímu. Það tókst sem betur fer að lokum að landa óhöfnu láni frá Evrópska fjárfestingarbankanum, sem skipti fyrirtækið miklu máli á þeim tíma.

Þess vegna lá nokkuð ljóst fyrir að hyggilegast var — burt séð frá afstöðu manna til þess hvort þessi uppskipti þurfa og eiga að eiga sér stað, og margir væru þeir til sem vildu gjarnan fara í alveg gagnstæða átt og heimila orkufyrirtækjunum að sameina rekstur sinn á nýjan leik, enda má segja að annað sé á margan hátt fáránlegt miðað við íslenskar aðstæður, sannarlega ekki í þágu neytenda, enginn vandi að búa þannig um samkeppnisþáttinn í þessu þannig að hann sé algjörlega bókhaldslega aðskilinn og hafi ekki neinar samkeppnistruflanir í för með sér — að mínu mati að stíga varlega til jarðar gagnvart þessu stóra og gríðarlega mikilvæga fyrirtæki sem Orkuveita Reykjavíkur er.

Ánægjulegt er að fyrirtækinu hefur verið að takast að ná vopnum sínum, að vísu með nokkuð sársaukafullum aðgerðum sem snúa að sölu eigna og ýmsum breytingum sem til langs tíma litið eru ekki endilega hagstæðar fyrirtækinu, en það bætir fjárhagsstöðu þess til skemmri tíma litið og léttir því róðurinn við að ná niður skuldum og ná markmiðum samkvæmt sérstakri áætlun sem félagið vinnur nú eftir. Að sjálfsögðu hefur þetta líka komið við gjaldskrár fyrirtækisins þannig að notendur hafa fundið fyrir því. Væri reyndar freistandi að fara yfir það hvernig í ósköpunum þau firnasterku fyrirtæki sem voru vatnsveita og hitaveita í Reykjavík, skuldlaus með manni og mús alveg fram á fyrir áratug eða einum og hálfum áratug síðan, gátu einhvern veginn orðið að þessari gríðarlega skuldugu orkuveitu sem var með þegar verst lét rétt með hökuna upp úr vatninu. En það er önnur saga. Ánægjulegt er að fyrirtækið er þó að ná árangri í að endurskipuleggja rekstur sinn og ná niður skuldum en það mun taka í á komandi árum. Orkuveita Reykjavíkur, það er ekkert launungarmál, er eitt af þeim fyrirtækjum þar sem veruleg skekkja er á milli gjaldeyristekna annars vegar og erlendra afborgana af erlendum lánum hins vegar. Það kemur því inn í dæmið þegar verið er að ræða um greiðslujöfnuð þjóðarbúsins á næstu mánuðum, missirum og árum.

Þar af leiðandi hefði maður búist við að menn vildu stíga alveg sérlega varlega til jarðar varðandi það að taka enga óþarfa áhættu með stöðu þessa fyrirtækis nú og einhver ár kannski inn í framtíðina á meðan það er að vinna áfram eftir endurreisnaráætlun sinni.

Því var það að eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur með fulltrúum allra samstarfsaðilanna um eignarhaldið, sveitarfélaganna, gekk á fund hæstv. ráðherra og óskaði eftir því að fyrirtækið fengi framlengda undanþágu frá því að fara í þessi uppskipti og helst varanlega. Skemmst er frá því að segja að hæstv. ráðherra léði ekki máls á slíku. Fyrirtækið er í þeirri stöðu og hafði vissulega notað tímann til að undirbúa það að uppskiptin gætu átt sér stað ef ekki yrði fallist á óskir um að veita frekari frest eða aðlögun að þeim. Það er því ekki vilji eigenda fyrirtækisins að skipta því upp heldur þvert á móti. Það liggur fyrir skjalfast og þeir sem sátu fundi þingnefndarinnar og hlustuðu á eigendanefndina þegar hún kom þangað hljóta að geta borið því vitni.

Áhættan getur meðal annars verið fólgin í því að í lánasamningum fyrirtækisins eru ýmsir skilmálar sem geta virkjast eða menn geta gripið til og virkjað ef þeim sýnist svo. Nú er það auðvitað jákvætt að fyrirtækið hefur kynnt þessar breytingar fyrir stærstu lánardrottnum sínum, en í þeim hópi geta verið mismunandi aðilar. Það er ekki endilega fullnægjandi trygging þó að tveir stærstu aðilarnir sem ég gef mér að séu Norræni fjárfestingarbankinn og Evrópski fjárfestingarbankinn hafi tekið þessu sæmilega, að það gildi endilega um alla sem í dag eða kunna síðar að eiga útistandandi lán hjá fyrirtækinu.

Það þarf líka að huga að mögulegum áhrifum þess á fyrirtækið til framtíðar litið og hvort svona uppskipting og dótturfélög verða endilega í jafn góðri stöðu til þess að endurfjármagna erlend lán eða sækja sér ný þegar á því kann að þurfa að halda. Væntanlega verður það ekki til frambúðar örlög þessa fyrirtækis að aðhafast ekki neitt og greiða bara niður skuldir. Einhvern tímann kemur væntanlega að því að fyrirtækið þarf í fjárfestingar, endurnýjun, og/eða vill að einhverju leyti endurfjármagna eftirstöðvar af erlendum lánum o.s.frv., þá skipta lánskjörin máli.

Ég er í litlum vafa um það hafandi nokkra reynslu af því að eiga samskipti við þessa stóru erlendu banka og fjárfestingarbanka og hafandi nokkra reynslu af því að reyna að vera talsmaður stóríslensku orkufyrirtækjanna, m.a. í þeim samskiptum á grundvelli þess að þau væru þjóðhagslega mikilvæg og stjórnvöld fylgdust með þeim og stæðu við bakið á þeim að breyttu breytanda þegar harðnaði á dalnum eftir hrunið, að styrkur þeirra hafi m.a. verið sá að þau væru stór, rekin sem ein samstæða og að á bak við skilvísar greiðslur á lánum fyrirtækjanna stæðu allar eignir og allt tekjustreymi fyrirtækjanna. Þannig hygg ég að þetta hafi verið og sé í mörgum af þeim lánasamningum sem þau fyrirtæki hafa tekið í gegnum tíðina. Þar af leiðandi er það alveg mögulegt, það er auðvitað ekki hægt að fullyrða öðruvísi en á grundvelli upplýsinga frá þeim sem hafa aðgang að öllum þessum skjölum hvernig þeir skilmálar kunna að vera í einstökum tilvikum, en þeir eru margvíslegir og margir til staðar. Skuldaframlegðarhlutföll, eiginfjárhlutföll og annað því um líkt er iðulega tekið fram í slíkum samningum. Dæmi eru þess að menn hafi notað það ef þeir svo vilja til að segja jafnvel upp, gjaldfella lán eða breyta vöxtum á þeim.

Ég tel að það hljóti að hafa verið freistandi að gefa Orkuveitunni að minnsta kosti tvö til þrjú ár, eða að lágmarki eitt til tvö ár í viðbót. Gangi vel áfram að vinna samkvæmt áætluninni þá munar um hvert ár sem fyrirtækið kemst lengra inn á þá braut sem það er á í þessum efnum til að styrkja stöðu sína og bæta.

Mér sýnist, virðulegur forseti, alls ekki jafn einboðið og ætla mætti að afgreiða frumvarpið bara sisona. Ég er satt best að segja nokkuð undrandi á því ef mönnum finnst það léttvægt mál, því að í húfi er mikilvægt fyrirtæki með mikla hagsmuni. Afstaða eigendanna hvað þeir helst vildu liggur alveg fyrir og er ekki umdeilt, að þeir hefðu kosið að fá framlengda undanþágu til að þurfa ekki að ráðast í uppskipti fyrirtækisins. Ef það verður engu að síður vonum við að sjálfsögðu að það gangi vel. Allt sem er hughreystandi í þeim efnum, að minni ástæða sé kannski til að óttast að það hafi neikvæð áhrif á samskipti fyrirtækisins við lánardrottna sína, núverandi eða mögulega tilvonandi í framtíðinni, er að sjálfsögðu jákvætt. En það er engin leið að svara því með afgerandi hætti hvort nú eða síðar kunni þetta á einhvern hátt að hafa áhrif á stöðu fyrirtækisins og þá að sjálfsögðu langlíklegast að það væri til hins verra.

Það er eitt atriði enn, virðulegur forseti, sem ég undrast svolítið og vikið er að því í nefndarálitinu. Þar segir: „Einnig var vísað til þess að það skipti Orkuveitu Reykjavíkur miklu að hafa heimild til að nota bandaríkjadal sem starfrækslugjaldmiðil.“

Upplýst var í nefndinni að þetta hefði verið ein af óskum Orkuveitunnar. Ef til uppskiptingar kæmi yrði tekinn af allur vafi um það að samkeppnisfyrirtækið, samkeppnishluti rekstrarins, sú eining sem yrði afmörkuð utan um samkeppnisþættina, framleiðsluþáttinn á raforkunni væntanlega ekki síst, gæti haft bandaríkjadal sem starfrækslugjaldmiðil. Ég geng út frá því að þetta hafi verið reist af hálfu Orkuveitunnar vegna þess að þeir telji að þeir þurfi lagastoð eða heimild í lögum, eða a.m.k. sé það sterkara, þannig að ekki sé neinn vafi á því að þessi hluti samstæðunnar megi nota bandaríkjadal sem starfrækslugjaldmiðil. En ekki er tekið á því að ég fæ best séð í tillögum nefndarinnar, heldur er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Mér finnst að þetta atriði þurfi að skýrast og ef ekki nú við 2. umr. mundi ég óska eftir því að málið gengi aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. þannig að hægt yrði að ganga úr skugga um þetta atriði.