143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég leiðrétta smámisskilning í nefndarálitinu sem ég las upp áðan. Þar sagði ég að fram hefði komið við umfjöllun um málið í nefndinni að erlendir kröfuhafar fyrirtækisins tækju vel í áform um uppskiptingu þess og væru jákvæðir gagnvart stöðu þess. Þetta eiga auðvitað að vera lánardrottnar. Ég hef beðið um leiðréttingu á þessu og að málið verði prentað upp.

Aðeins um starfrækslugjaldmiðil fyrirtækisins eftir þessa uppskiptingu og það sem það á við. Þetta kom fram á fundi nefndarinnar frá eigendanefndinni, en við töldum okkur ekki eiga að setja þetta í lagatexta. Um það vorum við sammála í nefndinni. Það kom fram hjá fulltrúum eigendanefndarinnar að um þetta væri ekki hægt að sækja hjá þar til bærum yfirvöldum fyrr en uppskiptingin hefði átt sér stað þannig að þessi framkvæmd verður að eiga sér stað og síðan þarf að sækja um þetta eftir lögformlegum leiðum. Það er ekkert fyrir fram sem bendir til annars en að þetta eigi að geta gengið upp í samræmi við niðurstöðu eins og Landsvirkjun hefur til dæmis fengið í sambærilegum málum. Við töldum okkur ekki geta hnykkt á þessu frekar en það að minnast á þetta í lagatextanum en töldum ekki í okkar verkahring að afgreiða málið með svo afgerandi hætti að binda það í lög við afgreiðslu málsins.