143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held, eins og allir vita, að afskaplega mikilvægt sé að menn fari mjög vel yfir frumvarp eins og þetta og í rauninni öll frumvörp, það er auðvitað hlutverk nefnda. Ég vildi þess vegna koma með ábendingu til hv. atvinnuveganefndar, sem snýr að 2. gr.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að eiga dótturfélög og eiga hlut í félögum.

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Einnig þá starfsemi aðra sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækjanna, sem og iðnþróun og nýsköpun.“

Virðulegi forseti. Þetta þýðir í rauninni að fyrirtæki getur gert nokkurn veginn hvað sem er. Svo að við tökum dæmi um starfsemi sem getur nýtt þekkingu og búnað fyrirtækjanna þá erum við með gagnaveitu, hægt er að fara í fjarskiptafyrirtæki, fara í samkeppni þar.

Orkuveita Reykjavíkur á eitt stærsta og fullkomnasta eldhús á Íslandi. Þegar R-listinn var og hét var gerð sérstök kvikmynd um eldhúsið. Það leikur enginn vafi á því að eldhús Orkuveitunnar, svo eitt dæmi sé tekið, getur farið í samkeppni við öll sambærileg eldhús á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Það hefur vissulega orðið breyting á þessari grein frá því sem var, búið er að taka út viðskipta- og fjármálastarfsemi en Orkuveitunni er heimilt að fara í viðskipta- og fjármálastarfsemi eins og lögin eru núna, getur keypt sér banka eða sparisjóð eða eitthvað slíkt. Sú breyting sem var sett inn á sínum tíma kom hér í skugga nætur á síðustu stundu, gerði það að verkum að þetta hefðbundna orkufyrirtæki fór í fyrirtæki sem hét Lína.Net, sem er núna Gagnaveitan. Í það fyrirtæki átti að setja að hámarki 200 millj. kr., það átti að flytja tölvuboð í gegnum raflínur og síðan átti að selja með miklum hagnaði nokkrum mánuðum eftir stofnun. Þetta er fyrir mörgum milljörðum síðan, mörgum milljörðum.

Það var líka farið í risarækjueldi, það var keyptur ljósmyndabanki. Ég hef haldið margar ræður um þetta í gegnum tíðina en ég man ekki öll fyrirtækin sem menn ákváðu að fara í, þetta var mjög fjölbreytt flóra.

Þessi grein eins og hún stendur opnar fyrir þau ævintýri aftur. Ég veit af skelfilegri reynslu af því að Orkuveitan skyldi fara í óskyldan rekstur að ekki er hávær umræða um það, eftir því sem ég best veit, innan borgarstjórnar Reykjavíkur að fara í óskylda starfsemi. Ég veit ekki til þess, það getur vel verið að svo sé en ég hef alla vega ekki heyrt það í fjölmiðlum og það er kannski m.a. út af tíðarandanum. Við erum hér að hugsa um lagasetningu til lengri tíma og sporin hræða. Það er alveg augljóst hvað getur gerst, það hefur kostað milljarða og jafnvel milljarðatugi.

Hv. atvinnuveganefnd verður að mínu áliti að fara betur yfir þetta og skoða sérstaklega þann þátt því að það er hv. Alþingi sem ber ábyrgð á því hvernig lagasetningin er. Þó svo að við viljum ekki fara inn í og skipta okkur af því hvernig eigendurnir fara með eða fulltrúar eigendanna fara með fyrirtækið hljótum við að huga að því hvernig umhverfi við viljum hafa í efnahagslífinu á Íslandi því að þetta fyrirtæki er í þeirri stöðu, það er einokunarfyrirtæki að langstærstum hluta, að hafa slíka fjárhagslega yfirburði, hefur haft og mun hafa, að það getur tekið niður hvaða samkeppnisrekstur sem það vill ef vilji er fyrir því og getur farið án þess að finna fyrir því í allra handa framleiðslu undir fallegum orðum eins og „nýsköpun“ og öðrum slíkum. Hér er sérstaklega talað um iðnþróun og nýsköpun og það er vísað í þekkingu og búnað fyrirtækjanna, fest inn að það eigi að vera í gagnaveitu, sem er samkeppnisrekstur.

Ég tel afskaplega mikilvægt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að þessi þættir séu skoðaðir af fullri alvöru. Sporin hræða. Vinstri grænir, Samfylkingin keyrðu á sínum tíma ákveðna stefnu sem kostaði skattgreiðendur, og í rauninni almenning allan, gríðarlega fjármuni þrátt fyrir varúðarraddir og viðvaranir og það væri slæmt ef við gengjum þannig frá lagasetningu núna að við opnuðum á önnur slík ævintýri sem munu koma illa niður á — (Gripið fram í: Eigum við að tala um REI?) Virðulegi forseti, hér er kallað: Eigum við að tala REI? Ég held að það væri mjög gott og sérstaklega við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Ég held að það væri mjög gott að farið yrði vel yfir það, alveg í smáatriðum og ég er til í það hvar og hvenær sem er. Þáttur hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur er ekki öllum ljós og ég held að mjög mikilvægt sé að hann verði upplýstur þannig að allur landslýður fá að vita um hann.

Ég held að það væri ágætt að fara yfir, af því að hv. þingmenn Vinstri grænna eru eitthvað órólegir undir þessari umræðu, og jafnvel sá rólyndis- og jafnaðargeðsmaður hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lætur sér eitthvað bregða við að farið sé yfir þessa sögu. Ég held að mjög gott væri að fara yfir umræðuna, söguna, afleiðingarnar og kostnaðinn af þeirri ævintýraför vinstri flokkanna á Íslandi. (Gripið fram í.)

Nú er síðasta hálmstráið gripið, að kallað hér upp að ákveðinn maður sem var ekki í þeirra flokki, að þetta sé allt honum að kenna. Það er sérstök rannsóknarskýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur og þar kemur fram, eins og annars staðar, að viðkomandi einstaklingur var studdur einarðlega í bókunum, hvað eftir annað, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og kom mjög skýrt fram að allar ábendingar eða ummæli þess efnis að hér væri um að ræða einhvern klofning milli R-listans hvað varðar málefni Orkuveitu Reykjavíkur var fullkomin þvæla. Það ríkti algjör eindrægni, sátt og samstaða um þá stefnu sem um var að ræða. Ég ætla ekki að ræða þetta hér en er til í að fara nákvæmlega yfir þá þætti hvar og hvenær sem er.

Stóra einstaka málið er að ekki er skynsamlegt að fyrirtæki eins og þetta geti farið í hvað sem er, það er ekki skynsamlegt. Það ætti að vera öllum í fersku minni hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Ég hvet því hv. atvinnuveganefnd til að skoða þetta á milli umræðna. Ég hef flutt nokkur mál um þetta en þau hafa aldrei náð í gegn, því miður. Ég mun gera hvað ég get til að koma í veg fyrir að svona slys verði aftur því að þessi slys, virðulegi forseti, eru dýr.