143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki, svo ég taki af allan vafa um það, neinar hugmyndir um að fresta afgreiðslu málsins.

Málið var í tvígang opnað á vegum síðustu ríkisstjórnar vegna alveg sérstakra ástæðna. Verið var að fresta gildistöku laganna hvað varðaði Orkuveitu Reykjavíkur einfaldlega vegna þeirra aðstæðna sem voru á markaði og þeirra erfiðu aðstæðna sem fyrirtækið bjó við. Þetta þekkja hv. þingmenn. Ef þetta var þeim svona mikið hjartans mál og þeir töldu raunhæft að fara þessa leið, af hverju í ósköpunum beittu þeir sér þá ekki fyrir því? Svo koma þeir með þá tillögu að við frestum þessu gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur einu sinni enn og förum í þá vegferð sem yrði örugglega löng og ströng og óvíst um niðurstöður eins og þeir tala um.

Er ekki eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur sitji við sama borð og önnur orkufyrirtæki í landinu þegar kemur að því hvaða lög um þetta gilda? Er það ekki eðlilegt? Það hefur verið hávær krafa og kom fram í umsögnum annarra orkufyrirtækja í meðförum nefndarinnar á síðasta kjörtímabili að þau ætluðust til þess að Orkuveita Reykjavíkur innleiddi þessar breytingar eins og þau fyrirtæki hafa gert.

Hitt er svo allt annað mál að hv. þm. Ögmundi Jónassyni eins og öllum öðrum þingmönnum er auðvitað að fullu heimilt að koma fram með þingmál sem tekur á þessu með þeim hætti sem hann er að fara fram á, þ.e. að þessi tilskipun verði dregin til baka, að farið verði í þá vegferð. (Forseti hringir.) Það er ákaflega óvíst um þá niðurstöðu en ég mun ekki stuðla að öðru en að þetta mál verði afgreitt. Um það var samstaða í nefndinni með þeim fyrirvara sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir var með og ég fór yfir áðan.