143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[17:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Með þeirri undantekningu sem fyrirvari hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur er — það er ekki léttvægur fyrirvari, hann snýr að grundvallarhagsmunum okkar samfélags. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að þetta frumvarp sé ekki í samræmi við hagsmuni okkar samfélags. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður áfellist fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að hafa látið sitja við það eitt að fresta málinu og koma í veg fyrir að þetta yrðu lög — sem hv. þm. Jón Gunnarsson er að tala fyrir — um aðskilnað og uppstokkun í raforkuiðnaðinum í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann að mæla fyrir þessu máli vegna þess að hann trúi því að þetta sé sérstaklega eftirsóknarvert fyrir íslenskan raforkuiðnað og orkuiðnað, telur hann það? Eða telur hann sig vera nauðbeygðan til að samþykkja þessa uppstokkun á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins, það er sjónarmið líka?

Það hafa jafnan verið margir innan þingsins sem hafa talið að við værum einfaldlega nauðbeygð að gera þetta, vegna þess að Evróputilskipunin lægi fyrir. Það var eflaust þannig innan fyrra stjórnarsamstarfs, ekki voru alltaf sömu áherslur í þessum efnum á milli Samfylkingar annars vegar og VG hins vegar í orkumálunum, þó að við sammæltumst um að skjóta þessu máli á frest.

VG hefur alla tíð viljað ganga lengra, enda höfum við talað fyrir því í þessum þingsal. Það þarf ekki annað en að hafa hlustað á þær ræður sem hér voru fluttar áðan, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti það ágætlega. Þar var verið að lýsa skoðunum sem við höfum haldið fram hér um þetta mál, vegna þess að við teljum að þetta sé óheillaspor fyrir orkugeirann.

Ég vil þá fá umræðu um hvort það er virkilega svo að ef við höfum einhvern tíma gengist inn á að samþykkja tilskipun frá Evrópusambandinu verði þar aldrei komist út, hversu arfavitlaust það er fyrir íslenskar aðstæður. Ég hefði talið að við ættum að láta á það reyna. Við gerðum það með póstinn, ég beitti mér fyrir því og var ekkert einn á báti með það, Norðmenn voru í þessu, og ríkisstjórnin samþykkti að við endurskoðuðum aðkomu okkar að því máli og færum ekki að ýtrustu samþykktum í því efni.

Að sjálfsögðu eigum við að gera það í þessu efni líka og við eigum að hlusta á þau varnaðarorð sem hafa komið víðar en frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frá sjálfstæðismönnum. Ég nefndi Björn Bjarnason, það má nefna ýmsa aðra sem hafa haft miklar efasemdir um að við værum að gera rétt í þessu efni.

Ég mælist að lokum til þess að þetta mál fái nánari skoðun og ekki verði reynt að hraða þessu í gegn fyrir þinglok. Ef á að gera það spái ég því að talsverð umræða eigi eftir að verða um þetta mál hér í þinginu, ég trúi ekki öðru. Ég held að menn láti ekkert knýja svona grundvallarbreytingar í gegn bara sisona. Ég hef ekki trú á því.