143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[17:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitt fjölmargra mála sem núverandi stjórnarmeirihluti setti sig upp á móti á síðasta kjörtímabili óháð efnisinnihaldi þegar hann var í stjórnarandstöðu. Það er hins vegar ágætt að málið hafi nú fengist afgreitt úr nefndinni en eins og ég segi er það umhugsunarvert að nákvæmlega sama mál hafi legið fyrir á síðasta kjörtímabili. Fulltrúar núverandi stjórnarflokka hafa lagst mjög gegn afgreiðslu þess úr nefnd. Nú rann málið hins vegar eins og vatn í gegnum nefndina og er þá ekkert því til fyrirstöðu að það verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Í mínum huga flokkast þetta varla sem vönduð eða góð vinnubrögð og hefði því kannski verið áhugavert ef formaður hv. utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, hefði verið hérna og upplýst okkur um hvað hafi breyst frá síðastliðnu vori. Að því sögðu vil ég taka fram að það er ágætt að málið sé nú komið úr nefnd og til síðari umræðu og vonandi verður það að lokum samþykkt.