143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

75. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka um umhverfismál við EES-samninginn.

Ég tek það fram að ég hleyp hér í skarðið fyrir framsögumann, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en ég mun nú greina frá nefndaráliti utanríkismálanefndar.

Nefndin fékk til sín fulltrúa frá utanríkisráðuneyti svo og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Þetta mál hefur tvívegis áður komið fyrir utanríkismálanefnd og ég ætla ekki að rekja það nánar, vísa einungis til nefndarálitsins. Þetta er í þriðja skipti sem málið kom fram til umfjöllunar nefndarinnar og ætla ég nú að rekja það efnislega.

Með tillögunni er nú leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013, frá 15. mars 2013, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 15. september 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Tilskipunin kveður á um skyldu til uppsetningar gufugleypa á bensíndælur í því skyni að draga úr loftmengun og bæta þar með loftgæði og vernda heilsu fólks. Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að slíka gufugleypa skuli setja upp á nýjar bensínstöðvar og bensínstöðvar sem undirgangast meiri háttar endurnýjun þar sem árleg bensínsala er meiri en 500 þús. lítrar, eða í þeim tilvikum þegar bensínstöð er staðsett undir íbúðarhúsnæði eða vinnusvæði, en í slíkum tilvikum er viðmiðið meira en 100 þús. lítrar á ári. Þá skuli setja upp gufugleypa á allar bensínstöðvar þar sem árleg bensínsala nemur meira en 3 millj. lítra á ári. Í síðastnefnda tilvikinu skuli búnaðurinn vera settur upp fyrir 31. desember 2018. Í tilskipuninni er jafnframt kveðið á um þær lágmarkskröfur sem gufugleyparnir þurfa að uppfylla, sem og reglulegt eftirlit með búnaðinum.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að skylda til uppsetningar gufugleypa verður frekar takmörkuð hérlendis, þar sem árleg sala bensíns á stórum hluta bensínstöðva hérlendis nær ekki 500 þús. lítrum á ári. Fjórar bensínstöðvar selja meira en 3 millj. lítra af bensíni á ári og þær hafa þegar sett upp nauðsynlegan búnað eða eru rétt í þann mund að ljúka uppsetningu. Á 103 bensínstöðvum verður einungis skylt að setja upp gufugleypa ef þær undirgangast meiri háttar endurnýjun eða nýjar stöðvar verða byggðar. Þá sé ein bensínstöð á Íslandi undir íbúðarhúsnæði og er talið ólíklegt að fleiri slíkar stöðvar verði reistar.

Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun umhverfis- og auðlindaráðherra í því skyni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.

Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar og efnahagslegar afleiðingar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið rita Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, Össur Skarphéðinsson, skipaður framsögumaður, Ásmundur Einar Daðason, Óttarr Proppé, Árni Þór Sigurðsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, sem hér talar, allt hv. þingmenn.

Því til viðbótar hefur hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, lýst sig samþykka þessu áliti.