143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

77. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka um hugverkaréttindi við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti, og hefur einnig borist minnisblað frá utanríkisráðuneyti.

Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um tilskipunina, það var árið 2011. Í því ferli hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd sömuleiðis, og var þá einnig leitað álits hjá stjórn Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda og hjá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar. Allsherjar- og menntamálanefnd gerði ekki athugasemdir við málið og skilaði áliti þar að lútandi.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013, frá 3. maí 2013, um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.

Tilskipunin kveður á um lengingu verndartíma listflutnings í hljóðritum, úr 50 árum í 70 ár, eftir að flutningur fór fram eða frumupptaka var gerð, eða eftir fyrstu útgáfu upptökunnar. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að mikilvægt væri að tryggja að listflytjendur nytu fjárhagslegs ávinnings af lengingu verndartíma hljóðrita til jafns við verndartíma höfunda, sem nú er 70 ár.

Höfundaréttur er sérstakt áhugamál þess sem hér stendur og mér þykir mikilvægt að nefna í þessari umræðu að höfundaréttur er margslunginn. Hann skiptist almennt í þrennt, þ.e. rétt höfundar, rétt flytjenda og síðan upptökurétt eða útgáfurétt. Síðan er höfundarétturinn margslunginn að því leyti að hann er annars vegar eignarréttur, eða réttara sagt réttur til þess að fara með viðkomandi listflutning eða verk, og hins vegar sæmdarréttur, sem er kannski ekki síður mikilvægur, sem veitir listamanninum rétt á að hafa eitthvað um það að segja hvernig farið er með verk hans eða flutning eða upptöku.

Það sem hér ræðir um er sem sé lenging á rétti flytjandans þannig að réttur hans lengist frá 50 árum eftir flutning í 70 ár og þá til samræmis við rétt höfundarins sem nú þegar er 70 ár frá andláti höfundar og sama á við um upptökuna. Þetta eru sem sé þrír aðskildir réttir þó svo að þeir búi gjarnan í einum og sama listamanninum.

Tilskipunin gerir ráð fyrir því að listflytjandinn njóti ávinnings af þessari lengingu verndartímans og það segir sig sjálft að í einhverjum tilvikum er hér verið að bæta við rétti á flutningi eða upptökum sem eru aftur í tímann, það er lenging á rétti umfram það sem gert var ráð fyrir. Því er gert ráð fyrir að listflytjandinn hafi um það að segja, að hann njóti þessa viðbótarréttar. Það er annars vegar tryggt með því að skylda megi hljómplötuframleiðendur til að leggja til hliðar upphæð sem samsvarar 20% af tekjum sem stofnast til vegna einkaréttar til dreifingar, eintakagerðar eða birtingar á hljóðritum og þessari upphæð skuli svo ráðstafað til þeirra sem hafa framselt eða úthlutað einkarétti sínum fyrir heildargreiðslu. Hins vegar má mæla fyrir um leiðréttingu á þeim samningum þar sem listflytjendur hafa framselt einkarétt sinn til endurgjalds til hljómplötuframleiðanda á þann hátt að listflytjendur byrji með hreint borð. Í þeim tilvikum bera ríki ábyrgð á því að úrræði séu til staðar takist ekki að endurnýja eða leiðrétta samninga milli aðila.

Að lokum er með tilskipuninni stefnt að því að tryggja samræmingu á verndartíma höfundaréttar milli aðildarríkjanna þegar um er að ræða frumsamdar tónsmíðar með frumsömdum texta á þann hátt að umrædd tilskipun nái til allra þeirra verka. Í þeim tilvikum er miðað við að verndartíminn skuli vera 70 ár frá andláti þess höfundar sem lengur lifir.

Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi. Mennta- og menningarmálaráðherra mun í því skyni leggja fram frumvarp til laga um breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Ekki er gert ráð fyrir því að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar eða efnahagslegar afleiðingar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir það rita hv. alþingismenn Birgir Ármannsson formaður, Óttarr Proppé framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.

Það skal tekið fram að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, er samþykk áliti þessu.