143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

78. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka um opinber innkaup við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013, frá 14. júní 2013, um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 14. desember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Tilskipunin kveður á um samræmingu á reglum er varða opinber innkaup á verk-, vöru- eða þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála. Markmið hennar eru jöfnun á samkeppnisskilyrðum, hagkvæmara innkaupaferli, lækkun kostnaðar og bætt afhendingar- og upplýsingaöryggi. Við umfjöllun nefndarinnar var meðal annars bent á að gerðar yrðu auknar kröfur til birgja í forvali um upplýsingagjöf og um hvaða undirverktaka þeir hygðust nota, en með því mætti auka rekjanleika við opinber útboð.

Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fjármála- og efnahagsráðherra í því skyni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, til innleiðingar á ákvæðum hennar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Gert er ráð fyrir að innkaup stofnana sem falla undir lög um opinber innkaup, sem og stofnanir sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, muni geta fallið undir breytta framkvæmd við innleiðingu tilskipunarinnar. Einkum er þó talið að ákvæði tilskipunarinnar kunni að hafa áhrif á opinber innkaup embættis ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Bent var á við umfjöllun málsins að fjármála- og efnahagsráðuneyti hefði haft samráð við framangreinda aðila við undirbúning á innleiðingu ákvæða tilskipunarinnar, enda varðaði hún einkum verkefni á sviði landamæravörslu, landhelgisgæslu, löggæslu og hættustjórnun.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir álitið rita hv. þm. Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég horfði hér á nefndarálitið. Það er augljóst að orðið hefur nafnaruglingur. Hér vantar nafn hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur en ritað hefur verið nafn hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur sem ekki á sæti í utanríkismálanefnd. Ég vænti þess að sú villa verði leiðrétt. Svona er þetta lesið og ég biðst fyrirgefningar á því. Þetta er auðvitað eins og önnur mannanna verk, sumir hafa atvinnu af því að búa til villur en aðrir af því leiðrétta þær og hér er þetta leiðrétt.