143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra sem eru lög sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili og snerust um heildarendurskoðun á dýraverndarlögunum. Lögð er til breyting á einni tiltekinni grein laganna sem varðar opinbert eftirlit af hálfu Matvælastofnunar.

Það er áhugavert, þegar maður skoðar nefndarálitið, að við meðferð málsins á síðasta kjörtímabili — sem raunar er undirritað af allflestum þáverandi nefndarmönnum þó einhverjir séu þar með fyrirvara — leggur nefndin til að um sé að ræða skýrari eftirlitsskyldur en lagt er til í frumvarpi nefndarinnar. Ég velti því upp hvaðan þessi ábending sem nefndin er að bregðast við komi. Það er alveg ljóst að í meðförum málsins í heild á fyrri stigum lögðust Bændasamtök Íslands mjög eindregið gegn ákvæðinu. Þau töldu að ekki væri ástæða til að ganga svo langt. Samband íslenskra sveitarfélaga hafði hins vegar á sínum tíma stutt þá niðurstöðu sem var í lögunum eins og þau voru samþykkt þar sem fram kom að eftirlitsheimsóknir skyldu fara fram með reglulegum hætti.

Ég geri ráð fyrir því að hv. framsögumaður málsins eða formaður nefndarinnar geri grein fyrir því í síðari ræðu sinni, bæði hvaðan þessi ábending kemur til að byrja með og hvað það er sem hvetur beinlínis til að slaka á eftirliti með því móti sem hér er lagt til þegar lögin hafa ekki einu sinni náð að safna neinni reynslu — þetta var vinna sem tók gríðarlega langan tíma og var unnin í mjög víðu og breiðu samráði á mjög löngum tíma. Þá vil ég spyrja hvort haft hafi verið samráð við fleiri aðila af því að ég þykist sjá að hér sé fyrst og fremst verið að bregðast við tilteknum ábendingum á fyrri stigum. Ég spyr til að mynda um afstöðu dýraverndarráðs til þessa og hvort Samband íslenskra sveitarfélaga hafi verið í samráði við nefndina, það kemur í raun ekki fram í greinargerðinni. Ég náði að vísu ekki alveg upphafinu á framsögu hv. þingmanns hér áðan en ég gat ekki merkt að gerð væri mjög skýr grein fyrir aðdraganda þess að þetta mál sé flutt af nefndinni, þ.e. efnisleg rök fyrir því að lagt sé til að dregið sé úr eftirliti í þessum efnum. Ég tel að það þurfi umtalsvert betri röksemdir í því efni en ég vænti þess að þegar málið verður sent til umsagnar þá muni þessi sjónarmið koma fram. Eftir sem áður stendur sú spurning, henni er ósvarað, hvaðan tilefnið kemur og hvað það er sem fær hv. þingmenn sem hér leggja breytinguna til til að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé málinu og málaflokknum til góðs.