143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er eingöngu verið að horfa á þetta mál, svo það sé alveg skýrt. Það er ekki hluti af einhverju stærra máli. Ég hef ekki séð nein mál sem þetta er hluti af en það má vel vera og ekki ólíklegt að fram komi önnur mál sem gætu verið sambærileg á þessu kjörtímabili.

Tel ég eftirlit alltaf vera íþyngjandi? spyr hv. þingmaður. Nei, nei, ég tel eftirlit alls ekki alltaf vera íþyngjandi. En ég tel að við getum hagað eftirliti með mjög misjöfnum hætti og að við getum í raun oft haft það miklu einfaldara en það er í dag. Ég vil taka dæmi um það.

Það eru ekki mörg ár síðan við vorum með stofnun sem hét Bifreiðaeftirlit ríkisins sem var með skoðunarstöð niðri í Borgartúni. Svo voru bifreiðaeftirlitsmenn úti um allt land. Ég man að ég tók bílprófið hjá einum slíkum á Blönduósi þegar ég var 17 ára gamall. Bifreiðaeftirlitsmenn ríkisins voru staðsettir í öllum bæjum úti um allt land. Bifreiðaeftirlit ríkisins var inni í Borgartúni með höfuðstöðvar sínar og svo var það líka suður í Hafnarfirði. Svo breyttum við þessu. Við slógum ekkert af eftirlitskröfunum en við nútímavæddum fyrirkomulagið. Við komum því þannig fyrir að það eru bara fyrirtæki sem sinna þessu í dag. Ég held að allir geti verið sammála um að sú breyting hafi verið mjög jákvæð. Það er ekki dýrt að fara með bílinn í skoðuð miðað við það sem það var. Ég tel það eftirlit að sjálfsögðu mjög eðlilegt og sjálfsagt en ég held að það hafi verið íþyngjandi fyrir ríkissjóð á þeim tíma þegar við þurftum að vera með bifreiðaeftirlitsmenn úti um allt land og höfðum það fyrirkomulag.

Í þágu hverra er eftirlitið? Það er alveg ljóst að það er oftast í þágu okkar neytenda og varðandi það þingmál sem við ræðum hér þá er það auðvitað í þágu neytenda. Það er hluti af lögum um dýravelferð þannig að það er auðvitað líka í þágu málleysingja. Ég tel það vera mjög mikilvægt. Ég var sjálfur bóndi í nokkur ár. Ég átti á sjöunda hundrað ær, nokkur hross og nokkrar gyltur. Það gekk ágætlega fyrir sig. Ég þekki ágætlega til í sveit og ég tel þetta vera óþarfaeftirlit, það er skoðun mín að það sé bara óþarfi að koma reglubundið samkvæmt einhverjum lögum heim á hvern einasta bæ, hvort það er árlega eða annað hvert ár. Ég tel að það sé of kostnaðarsamt og íþyngjandi að því leyti, en það þýðir ekki að ég vilji eitthvað slá af þeim kröfum sem við gerum til þeirra sem stunda búskap. Það hefur ekkert með það að gera. Ég tel að þeir eigi að sæta eftirliti. Reyndar er það nú þannig til sveita almennt að nágranninn er sennilega yfirleitt besti eftirlitsaðilinn. Það er þannig almennt með bændur og búalið, svo það sé sagt, að það hefur velferð málleysingja mjög í hávegum og sættir sig ekki við að farið sé illa með skepnur þannig að eftirlitið er kannski eins og í svo mörgu öðru svolítið hjá okkur sjálfum, fólkinu.