143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

163. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum. Ásamt mér flytja þessa þingsályktunartillögu hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og Bjarkey Gunnarsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að senda tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.“

Þessi þingsályktunartillaga var áður flutt á síðasta þingi og er endurflutt nú óbreytt. Þess er að geta að í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var lögum breytt í þessa veru og reyndar voru þau lög framlengd með nýrri lagasetningu á meðan verið var að búa í haginn fyrir margvísleg úrræði sem kynnt voru með lögum, fest voru í lög eða framfylgt með öðrum hætti.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð gerði hún það á grundvelli loforða um niðurfærslu á höfuðstól hjá húsnæðiskaupendum. Vegna þess hve óljóst var hver úrræðin yrðu endanlega hafði það strax áhrif á fasteignamarkaðinn. Að sjálfsögðu fóru fjölskyldur sem voru skuldum vafnar að huga að því hvort í þessum úrræðum væri að finna einhverja bjarghringi fyrir sig. Á þeirri forsendu fannst okkur eðlilegt að setja fram tillögu um frestun á nauðungarsölum. Ég vek athygli á því að annars vegar er um að ræða tilmæli til Íbúðalánasjóðs, enda heyrir hann undir ríkisvaldið, og áskorun hins vegar til fjármálastofnana sem heyra ekki undir ríkisvaldið um að ráðast ekki í innheimtuaðgerðir eða útburð á fjölskyldum. Því miður eru okkur að berast fregnir af því hvaðanæva að af landinu að það sé óvenju mikið um slíkt núna.

Nú eru tillögurnar komnar fram en úrræðin eru engu að síður ekki ljós. Útfærslur og framkvæmd á þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku liggja ekki fyrir. Við þekkjum útlínurnar. Við vitum að nái þessar tillögur fram að ganga, sem ég vona svo sannarlega að þær geri, mun það lagfæra fjárhag margra einstaklinga og fjölskyldna. Þá er spurningin hvort það gæti orðið til þess að einhverjir sem ella yrðu bornir út eða misstu heimili sín gætu komist fyrir vind.

Þess vegna er ekki óeðlilegt að gripið sé til slíkra ráðstafana þar til úrræðin liggja endanlega fyrir og eru helst komin í framkvæmd.

Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta efni. Við gerðum grein fyrir þessu þingmáli þegar það kom fram á síðasta þingi. Ég held að öllum sé fullljóst hvað hangir á spýtunni nú þannig að ég ætla að mælast til í lok orða minna að málið fái skjóta afgreiðslu hér á þingi við þessa umræðu og verði að henni lokinni vísað til allsherjar- og menntamálanefndar þingsins.