143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

163. mál
[18:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég taki undir spurningu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur — með lagasetningu væri hægt að gera það sama og á síðasta kjörtímabili að stöðva nauðungarsölur tímabundið hjá öllum þessum fjármálafyrirtækjum, sama hvort um er að ræða Íbúðalánasjóð eða fjármálafyrirtæki í einkaeigu. Það væri líka hægt með lagasetningu frá þinginu að stöðva Íbúðalánasjóð einan og sér eins og komið hefur fram í frumvarpi nokkurra þingmanna Pírata, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og Samfylkingar. Er rétt skilið að lagasetningu þurfi til að gera hvort tveggja? Þessi þingsályktunartillaga gengur út á það að húsnæðis- og félagsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra væru með tilmæli til Íbúðalánasjóðs sem mundi þýða að þau tilmæli væru bindandi — er það rétt skilið að það væri bindandi fyrir yfirstjórn Íbúðalánasjóðs, að hún yrði að fara að þeim tilmælum? Því væri síðan beint til einkarekinna fjármálastofnana að gera slíkt hið sama, það væri þá ekki bindandi. Er þetta réttur skilningur?