143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

163. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég að gerast mjög varkár í lagatúlkunum. Það má vera að einhver segði að Íbúðalánasjóður hefði sjálfstæði og væri sjálfstæð stofnun með stjórn sem réði sínum ráðum og að í þeim skilningi gæti hún komist undan því að framfylgja þessu. Það má vel vera að einhverjir lögspekingar mundu túlka það í þá veru, þannig að ég þori ekki að fullyrða alveg um það. Ég lít hins vegar svo á að ef löggjafinn samþykkir að stofnun sem er í eigu okkar allra og starfar á vegum okkar allra, ef löggjafinn sýnir vilja sinn á afdráttarlausan hátt með samþykkt þingsályktunartillögu að þessu leyti, þá yrði það niðurstaðan. Ég hef þennan fyrirvara á engu að síður varðandi sjálfstæði stofnunarinnar.