143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

163. mál
[18:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að þakka kærlega fyrir þessa þingsályktunartillögu. Þetta er frábær þingsályktunartillaga en hún er ekki bindandi, það er gallinn við hana. Hún gefur þinginu samt sem áður tækifæri til að sýna hvort það sé vilji þingsins að nauðungarsölur verði stöðvaðar.

Eins og ég nefndi í andsvari hafa þingmenn Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Framsóknar lagt fram lagafrumvarp sem mundi binda Íbúðalánasjóð þannig að hann mætti ekki fara í nauðungarsölur. Það byggir á sömu frystingu og var á síðasta kjörtímabili. Við völdum Íbúðalánasjóð vegna þess að hann er ríkisfyrirtæki. Það er svo erfitt fyrir ráðherra að segja: Ég get ekki gert neitt, það má ekki ganga gegn eignarréttinum o.s.frv. En Íbúðalánasjóður er í eigu ríkisins og með lögum er hægt að móta stefnu hans. Þess vegna völdum við Íbúðalánasjóð.

Ég vona bara að þingið samþykki þessa þingsályktunartillögu, það mundi sýna vilja þingsins. Ég vona að þingið samþykki lagafrumvarpið okkar, sem ég nefndi, um að Íbúðalánasjóður stöðvi nauðungarsölur. Svo ég vona líka að ríkisstjórnarflokkarnir bæti um betur, fari bara alla leið með þetta.