143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

195. mál
[19:24]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir því sem ég kemst næst við mótun þeirrar stefnu sem ég vitnaði til áðan var hún ekki kostnaðargreind. Í fjárlögum eru hins vegar árlega veittar upphæðir í afrekssjóð og árlega í ferðasjóð og eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kom inn á eru sveitarfélögin með sinn stuðning við afreksfólk í heimabyggð. Í mínum huga væru þetta vel nýttir fjármunir. Útgjöldin munu verða án efa meiri fyrir ríkið og sveitarfélögin en akkúrat núna en þetta er hugsað þannig að með mótun heildstæðrar stefnu um það hvernig við viljum gera hlutina, tímasetja hana og tryggja henni fjárhagslegan stuðning þurfi okkar fólk ekki að bíða, ár frá ári eða mánuði til mánaðar, eftir því að fá að vita hvort það geti hugsanlega haldið áfram eða þurfi að leita á náðir fjölskyldu eða taka lán.

Mig langar að bæta því við að hægt væri að vinna sams konar tillögu fyrir ungt afreksfólk í listageiranum vegna þess að við eigum þar líka jafn mikla og góða afreksmenn á ýmsum sviðum og á sviði íþrótta. Þetta er bara hugmynd. Þetta mun kosta okkur fjármuni en í mínum huga eru þeir fjármunir vel nýttir.