143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðilega framsögu fyrir mikilvægu máli sem mér finnst full ástæða til að styðja. Mig langar aðeins í þessu samhengi að leyfa mér að horfa á þetta mál undir aðeins víðara sjónarhorni. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að þessa dagana erum við að ræða og fjalla um, bæði hér á pólitískum vettvangi og líka á vettvangi fjölmiðlanna, ýmsar nýjar staðreyndir og mælingar að því er varðar menningu og stöðu hennar. Þá vil ég nefna nýja PISA-könnun og stöðu læsis. Ég vil nefna stöðu íslenskrar tungu sem bar á góma undir Störfum þingsins og síðan umræðuna um niðurskurð á Ríkisútvarpinu og þá kannski sérstaklega að því er varðar Rás 1.

Það er kannski þáttur sem hefur lítið verið ræddur varðandi Rás 1, þetta menningarlega hlutverk, ekki bara miðlunarhlutverk heldur líka varðveislu- og skráningarhlutverk. Það hefur verið gríðarlega stórt og mikið verkefni á Ríkisútvarpinu undanfarin ár, og hefur fyrst og fremst verið hýst á Rás 1, að færa gamalt útvarpsefni yfir á stafrænt form. Í sjálfu sér heyrir þetta undir algerlega sömu hugsun og hv. þingmaður mælir fyrir hér. Þarna erum við með gríðarlega mikið af menningararfinum í forgengilegu formi, þ.e. á gamaldags segulböndum o.s.frv.

Í þessum efnum hefur skort stefnu innan húss í Ríkisútvarpinu um árabil en einstakir starfsmenn og einstakir tæknimenn hafa sérstaklega tekið utan um þetta. Ég nefni til að mynda upptökur af upplestri nóbelsskáldsins og alls konar gömul viðtöl og tónlist og ýmislegt því um líkt. Mér er í sjálfu sér ekki kunnugt um hver staðan er á þessu núna en þetta er hluti af þessari gömlu Rás 1 og það er sá hluti sem orðið hefur fyrir mestu höggi í síðustu uppsagnalotu. Tillagan kemur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum alvarlega þau merki sem eru að berast okkur úr ýmsum áttum akkúrat núna um stöðu íslenskrar menningar, varðveislu hennar, læsi og alla þessa þætti og horfum líka til þess — ég styð tillöguna og mér finnst hún góð og mikilvæg — að við erum með, til að mynda á Þjóðskjalasafni, eins og kom fram í framsögunni, og ekki síður á Ríkisútvarpinu, þekkingu, yfirsýn, aðstöðu, tækni og starfsfólk til að ganga í verkið.

Mikilvægt er að ná utan um það í heild og gera langtímaáætlun eins og hér er lagt til. En það er líka mikilvægt að gæta vel að þeim vettvangi sem þegar er til staðar þar sem vitneskjan og yfirsýnin og tæknikunnáttan er fyrir hendi, að gæta þess að þessir þættir séu ekki vannærðir á meðan. Ég held að við þurfum að horfa á þetta allt í samhengi því að þegar við sjáum læsi fara aftur á Íslandi erum við líka að horfa á ákveðna þróun í samfélaginu í heild. Ég held að það sé mjög mikil einföldun að horfa bara á skólakerfið eða bara á grunnskólann eða bara á framhaldsskólann eða bara á einhverja tiltekna þætti; skólinn er að mörgu leyti svo miðlægur í samfélagsþróuninni og endurspeglar bæði það sem gott er og líka það sem vont er.

Þarna eru börnin okkar öll saman komin, allra stétta og allra þjóðfélagshópa, þannig að þær hreyfingar sem eiga sér stað í þessum hópum, meðal grunnskólabarna og framhaldsskólaungmenna, eru oft gluggi á það hvað er gott í samfélaginu og hvað er síðra. Þess vegna finnst mér ofsalega mikilvægt, þegar við horfum á PISA-niðurstöðuna í dag, að við þrengjum sjónarhornið ekki of mikið, alveg eins þegar við erum að tala um stöðu íslenskrar tungu, eins og við vorum að ræða í dag, og þegar við erum að tala um stöðu Ríkisútvarpsins, sem er ekki bara einhver vinnustaður. Það er alltaf hræðilegt þegar fólk missir vinnuna og það er alveg sama hvar það er en við erum að tala um þetta sem við eigum saman. Það er ekkert voðalega margt sem við eigum saman, það sem við lítum á sem þjóð að við eigum saman. Við eigum tungumálið saman, við höfum átt Ríkisútvarpið saman og við eigum Þjóðleikhúsið saman — það eru einhverjir ákveðnir þættir sem við viljum að séu óumdeildir og við gætum vel að. Hluti af því er það sem kemur fram í tillögu hv. þingmanns og annarra flutningsmanna sem er bara menningararfurinn og að skrásetja hann og varðveita til lengri tíma.

Ég tala hér fyrst og fremst til að flækja málin eins og stundum sem ég held að geti oft verið til bóta, þ.e. að skoða málin undir aðeins víðara sjónarhorni. Við erum að tala þarna um forgengilega þætti sem um leið eru ómetanlegir. Við erum að tala um þætti og þræði í íslensku samfélagi, og í hvaða samfélagi sem er, sem eru þeirrar gerðar að ef við missum tökin þá verður mjög illa aftur snúið. Þess vegna verðum við að skoða þetta allt saman sem þræði í sama vefnum sem er íslenskt samfélag. Ég árétta það og ítreka að ekki þarf hernaðarátök eða náttúruhamfarir eins og hv. þingmaður sagði, þetta getur einfaldlega verið birtingarmynd af stökum ákvörðunum, sem eru teknar ýmist til góðs eða ills, sem geta verið afdrifaríkar. Þess vegna þurfum við að skoða þetta allt í víðu samhengi. En ég fagna tillögunni og hlakka til að takast á við hana í allsherjarnefnd.