143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum óvenjulega og jafnvel hátt í það vandræðalega sammála, við hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni. Það er auðvitað hárrétt að þessi tæknilegi þáttur, eins og ég sagði, sem felst í því að lesa samkvæmt hefðbundnum og gömlum skilningi, þ.e. lesa sér til gagns, að skilja texta og færa í hann merkingu, er algjör lykilfærniþáttur. Hann verður ekki slitinn úr samhengi við neitt annað. Hins vegar er það orðið þannig að upplýsingar eru aðgengilegar börnum og ungmennum með miklu fjölbreyttari hætti en var í bæði texta, mynd og hljóði í sömu andrá.

Mér finnst það kannski vera áskorun samtímans að vinna meira í því að ná ró, að ná eirð, að ná því að hvíla í einföldu samhengi, að kunna það líka. Eins og einhver orðaði það þá er orðið fátítt að sjá að fólk kunni að njóta þess að gera ekkert, að gera nákvæmlega ekkert. Við þurfum alltaf á einhvers konar áreiti að halda. Við finnum það bara sjálf sem erum með snjallsímann á okkur, ef það er ekkert sem truflar erum við að róta í símanum til að hafa eitthvert áreiti í gangi. Við erum orðin áreitisfíklar að svo mörgu leyti.

Nú erum við komin á mjög skemmtilegan stað í þessari umræðu. En mitt upplegg með ræðu minni áðan, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka því vel, var einmitt til að víkka umræðuna og taka tillöguna eins og hún er lögð upp í þessu stóra og víða samhengi, sögu og samtímamenningar og samfélags, og hvernig við sköpum sögu framtíðarinnar með því hvernig við umgöngumst menningarleg verðmæti dagsins í dag.