143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:57]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar og fagna framlagningu hennar og ég lýsi yfir ánægju minni af að hlusta á samskipti hv. þingmanna og hlakka til að heyra dýpri umræðu um skólamál og PISA-kannanir og annað slíkt.

Ég get líka tekið undir það sem fram hefur komið að við þurfum að horfa á þetta í víðu samhengi. Við þurfum að horfa á menningararfinn í heild. Mig langar til að nefna verkefni sem hefur verið unnið að á Austurlandi, þ.e. að taka upp viðtöl við fólk sem býr yfir reynslu og þekkingu á grunnatvinnuvegunum, á hlutum eins og hreindýraveiðum, grenjavinnslu og öðru slíku. Þar er alveg gríðarlega mikil vitneskja og þekking að hverfa með mönnum sem hafa þekkt þetta áratugum saman. Það er allt mikilvægt í því að þekkja landið okkur, að við þekkjum rætur okkar og við þurfum að hlúa að því og gæta að þessu um leið og við tökumst á við hið gríðarlega mikla verkefni að varðveita bókmenntir, tónlist og annað. Við megum ekki gleyma þessum þætti í þjóðarmenningunni, þeim arfi sem við byggjum á hvernig við höfum komist af í þessu landi og tekist á við það líf sem hér er og hefur sem betur fer viðhaldist með elju og þrautseigju. Ég hlakka til að fá að fylgjast með framgangi málsins og fagna fram kominni þingsályktunartillögu.