143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[20:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt mál að vernda menningararfleifðina á stafrænu formi. Þetta er líka aðkallandi mál. Við tryggjum ekki eftir á. Eftir að við erum búin að glata menningararfleifðinni okkar verður hún ekki varðveitt. Það er því aðkallandi að fara í þetta starf strax og sjá hvar hætturnar eru, hvar hætta er á því að við töpum menningu, að sú arfleifð glatist, þannig að við getum farið strax að forgangsraða og byrja að vinna þessa vinnu.

Ég vona að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir muni ekki þurfa að flytja þetta mál aftur á næsta þingi, að það verði bara samþykkt núna þannig að hægt sé að hefja þessa vinnu. Það þarf ekki að setja mikla peninga í að hefja vinnuna þó að það sé mjög kostnaðarsamt að klára hana, en það getur tekið einhverja áratugi. Það er mikilvægt að hefja vinnuna þannig að við getum forgangsraðað þeim atriðum sem eru í hættu á að glatast strax.

Mig langar aðeins að blanda mér í umræðuna sem var hérna áðan og var mjög áhugaverð hjá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur um almennt læsi og læsi á upplýsingar. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á að læsi er mismunandi eftir upplýsingum. Það er líka annað, fólk tekur inn upplýsingar á mismunandi hátt. Þetta lærði ég af Peter Drucker sem talinn er faðir nútímastjórnunar. Hann kemur alveg skýrt inn á þetta og nefnir sem dæmi nokkra forseta Bandaríkjanna. Ronald Reagan tók inn upplýsingar með því að lesa þær. Hann vildi bara fá eitt blað sem útskýrði málið. Hann sagði: Ég les ekki nema ég fái þetta svona.

Svo eru aðrir forsetar Bandaríkjanna, m.a. oft þeir sem hafa komið úr þinginu, sem vilja hlusta. Svo eru enn aðrir sem taka ekki inn upplýsingar nema talað sé við þá, menn tjái sig við þá. Peter Drucker vann við að leiðbeina stjórnendum í stærstu fyrirtækjum heims, í stjórnsýslunni í Bandaríkjunum og í þriðja geiranum, hvort sem það voru Girl scouts eða American Heart Association o.s.frv. Hann vann við þetta í 50, 60, 70 ár og benti á þetta.

Það er svo gríðarlega mikilvægt að við förum að átta okkur á því að PISA-staðlar og þeir staðlar sem við metum eftir, samræmd próf og annað, meta svo ofboðslega þröngt hæfileikasvið og getu. Við þekkjum það líka úr stjórnunarfræðunum að það sem er mælt er það sem fókusinn er á. Það sem er mælt er það sem er gert. Það er svo auðvelt að festast í þeim mælingum. Af því að einhver mæling segir að við séum slöpp þarna þá er svo aðkallandi að við förum að hífa það atriði upp. Þá fellur annað á milli, þá missir annað fókus. Þarna vantar okkur heildstæðari menntastefnu þegar kemur að því að fókusera á hvar styrkleikar fólks liggja. Þeir eru ekki bara í lestri.

Ég les hægt sjálfur, ég var einhvern tímann greindur lesblindur og vann mig út úr því að miklu leyti en hef aldrei getað lesið hratt. Ég vann mig út úr því með þeirri tækni sem var í boði, margt var ekki í boði þegar ég var í skóla. Það er svo gríðarlega mikilvægt að við förum að fókusera á styrkleika hvers nemanda, förum í einstaklingsmiðaðra nám með fókus. Ég treysti hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssyni til að gera það.

Þessi þingsályktunartillaga er mjög góð og ég mun greiða atkvæði með henni.