143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar rétt aðeins að blanda mér í þessa umræðu og þá sérstaklega hvað varðar þau atriði sem hv. þingmaður nefnir. Í fyrsta lagi með íslensku mannanafnahefðina — nú er ég sjálfur, eins og 1. flutningsmaður þessa frumvarps, með ættarnafn sem er ættað frá Skotlandi, Edinborg. Faðir minn er Skoti og ég ber nafn hans og hef gert alla mína ævi. Ég á hins vegar fjögur börn sem eru Róbertsbörn, heita samkvæmt hinni íslensku mannanafnahefð. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað mun sérstakari hefð en ættarnafnahefðin.

Það sem við leggjum áherslu á í þessu máli — nú er það þannig með mín börn að þau hafa rétt til þess, kjósi þau svo, að taka upp mitt ættarnafn eða ættarnafn fjölskyldunnar sem er umfram það sem aðrir hafa. Í því felst ákveðið ranglæti sem við viljum leiðrétta. Við segjum að þetta sé dæmi um það frjálslyndi sem við í Bjartri framtíð kennum okkur við sem frjálslyndur flokkur; við tilheyrum bandalagi frjálslyndra flokka á alþjóðavettvangi og þá tölum við um frjálslyndi sem mótvægi við stjórnlyndi, þ.e. við treystum einstaklingnum til að taka ákvörðun í þessum efnum fyrir sjálfan sig og hann getur að sjálfsögðu líka gert það fyrir þessa hefð eins og ég sjálfur er ágætt dæmi um. Ég þekki fjölmörg dæmi þess, og meðal annars hér úr þinginu, þar sem fólk hefur einmitt réttinn til að nota ættarnafn en kýs að gera það ekki.