143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki vera stigsmunur eða eðlismunur, mér finnst þetta bara allt annað mál og ekki tengjast á nokkurn hátt. (Gripið fram í.)

Af því að hv. þingmaður var sérstaklega að velta fyrir sér þessum öryggisventli og af því að ég orðaði það sem svo að ráðherra væri kominn með hálfgildingsmannanafnanefnd sér við hlið, vegna þess að hann þarf einhverja sérfræðinga til að ráðfæra sig við, þá varðaði það ekki fjölda tilvika heldur bara einfaldlega hvers eðlis öryggisventillinn er.

Ef við gerum ráð fyrir því að frumvarp hv. þingmanna nái fram að ganga þ.e. efnislega að því er varðar hvað telst í lagi og hvað ekki, mundum við ætla að það væri miklu sjaldgæfara að það kæmi til kasta mannanafnanefndar en er nú. Það sem ég er að segja er að mannanafnanefnd gæti eftir sem áður haft það hlutverk að fara yfir álitamál. Að mínu mati tryggir það ákveðið gagnsæi að mannanafnanefnd sé fyrir hendi, að hún sé með skýrari skilgreiningar eða þrengra starfssvið eða hvað það er. Verklagsreglur og vinnureglur þurfa að vera skýrari fyrir alla sem að málum koma, þá sem leita ásjár nefndarinnar með ágreiningsmál heldur en að ráðherrann hafi samkvæmt lögunum verkefnið og finni svo bara út úr því í hvert skipti til hverra hann leitar án þess að þar séu einhverjar sérstakar vinnureglur eða eitthvað slíkt.

Ég held að þetta sé umræða sem við botnum alls ekki hér því að það hefur verið greinilegt í umræðunum um þetta mál að menn telja það snúast miklu frekar um að ná tilteknu markmiði frekar en að festa sig í þeirri útfærslu sem hér er lögð til þannig að ég vænti þess að þetta verði sérstaklega tekið fyrir í nefndinni og sjónarmið reifuð (Forseti hringir.) til að nálgast farsæla niðurstöðu.