143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

fjárfesting í nýsköpun.

[15:05]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir með hv. fyrirspyrjanda: Tækniþróunarsjóður, þ.e. sá sjóður sem hv. þingmaður nefndi og er á mínu málasviði, er sannarlega mikilvægur. Hann hefur sannað gildi sitt og hefur gagnast fyrirtækjum á mikilvægum tímapunkti í þeirra þróunarstarfi. Það er einmitt þess vegna sem honum hefur verið hlíft við niðurskurði í hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun sem hv. þingmaður átti ríkan hlut í að koma á laggirnar á síðasta kjörtímabili. Þar var, eins og þingmenn vita, miklum fjármunum útdeilt til margra afbragðsgóðra verkefna. Ég vildi óska þess að ég gæti staðið hér og sagt: Já, þetta er fínt, þetta eru allt mjög fín verkefni, við skulum halda þessu öllu áfram. Það er bara ekki þannig vegna þess að mikilvæga þáttinn vantaði í þessa fjárfestingaráætlun. Það vantaði fjármögnunina og þess vegna þurftum við að koma hér, með það markmið að leiðarljósi að ná hallalausum fjárlögum, með ýmsar erfiðar ákvarðanir.

Ég vil benda hv. þingmanni á að einmitt vegna þess hversu vel Tækniþróunarsjóður hefur staðið sig og hversu mikilvægur hann hefur verið í þróun og í vexti — vegna þess þáttar sem hann hefur átt í vexti fyrirtækja á sviði nýsköpunar — var hann ekki skorinn niður til fulls í fjárfestingaráætluninni. Ég vil benda á að ef miðað er við árið 2012 er þar aukning á milli ára 2012 og 2014. Ég leyfi mér að taka 2013 út fyrir sviga vegna þess að fjárfestingaráætlunin var ekkert annað en (Forseti hringir.) útbólgið kosningaloforð.