143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðrétting verðtryggðra námslána.

[15:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur nú boðað aðgerðir til skuldaniðurfellingar fyrir heimili með verðtryggð húsnæðislán í nafni réttlætis og sanngirni. Þó munu margir hópar ekki fá leiðréttingu á þeim búsifjum sem þeir hafa orðið fyrir. Má þar nefna leigjendur og fólk sem missti atvinnu.

Að þessu sinni vil ég ræða málefni þeirra sem eru með námslán. Í þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra um skuldamál segir að um almennar aðgerðir verði að ræða með áherslu á jafnræði. Það sem stingur augljóslega í augu er að þar eru bara sum verðtryggð lán undir. Verðtryggð námslán falla ekki undir aðgerðirnar. Það er þó ljóst að verðbólgan eftir hrun mun valda því að margt fólk, t.d. innan heilbrigðis- og menntakerfis, mun vegna hárrar verðbólgu greiða af námslánum sínum eftir að það verður komið á ellilífeyrisaldur og jafnvel út ævina. Það er tómt mál að tala um réttlæti þegar þetta blasir við, þ.e. að niðurfæra eigi sum verðtryggð lán en ekki önnur. Það er ójafnræði.

Í svari hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra við munnlegri fyrirspurn minni síðasta sumar um niðurfærslu námslána kom fram að hann mundi fela stjórn lánasjóðsins að fara yfir málið í framhaldi af vinnu sérfræðinganefndarinnar. Mig langar því að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hafi ekki nú þegar falið stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna það verkefni að finna leið til að færa niður höfuðstól verðtryggðra námslána.