143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

dýraeftirlit.

[15:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta mál er býsna flókið. Þegar frumvarpið var hér fyrir þinginu í fyrra var það markmið þáverandi ríkisstjórnar að gildistakan yrði 1. júní eða 1. júlí á þessu ári. Sá sem hér stendur benti ásamt fleirum á að það yrði erfitt, það þyrfti að semja ansi margar reglugerðir og svo væri einn hængur á í þessu máli, þ.e. að ná þyrfti samkomulagi við sveitarfélögin um þann kostnað sem flyst frá sveitarfélögum til ríkisins og ekki veitti af hálfu ári til viðbótar í það.

Því miður er sú staða enn uppi að sá samningur er ekki kominn á milli ríkis og sveitarfélaga um flutning þessara peninga og ágreiningur er um fjárhæðirnar. Svokölluð Jónsmessunefnd, sem er samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, hefur fjallað um málið en hefur ekki náð niðurstöðu.

Það er líka rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að Matvælastofnun, sem á að fara með málaflokkinn eftir að gildistakan er um garð gengin, undirbjó sig með því að auglýsa störf til umsóknar, sex störf, og hefur fólk til viðræðu. Í raun og veru er búið að velja þá sex einstaklinga sem áttu að hefja störf 1. janúar. Ráðuneytið óskaði eftir því við Matvælastofnun að ekki yrði gengið frá ráðningu fyrr en búið væri að tryggja fjármögnun sem þó hefur verið stefnt að og er enn stefnt að.

Ég mun eiga fund með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á morgun. Ef það gengur ekki erum við í mjög erfiðri stöðu. Við þurfum að velta fyrir okkur hvaða leiðir við höfum þá til lausnar þessu máli. Ein leiðin er sú að auka útgjöld ríkisins og halda áfram samningaviðræðum við sveitarfélögin eitthvað fram í tímann. Við þekkjum að það hefur því miður á ýmsum öðrum sviðum ekki verið líkleg leið til að ná góðum árangri. Það er bagalegt að einstaklingar skuli lenda þarna á milli og ég harma það. Að sjálfsögðu verður reynt að taka tillit til þess líka. Verið er að skoða hvernig hægt er að leysa þetta mál en það er ekki eins einfalt og það hljómar.