143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðréttingar í fjáraukalögum til heilbrigðisstofnana.

[15:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Varðandi það síðasta þá hafa einmitt verið gefin fyrirheit í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn um að bætt verði við 3–4 milljörðum til Landspítalans og ég get sagt það fyrir fram að ég styð eindregið auknar fjárveitingar þangað en ég á svo eftir að sjá hvar teknanna er aflað. Það er önnur umræða.

Varðandi þessi tvö mál var það einmitt þannig að vegna mikils niðurskurðar, og þótt við værum hætt við niðurskurðinn, bitnaði það mjög illa á Landspítalanum að geta ekki brugðist við með því að opna deildir og annað. Þess vegna var ákveðið að leyfa þeim að gera það og þeim tryggt fjármagn.

Það er mjög mikilvægt þegar svona mál koma upp hjá hverri ríkisstjórn, hvort sem það er fjárskaði á Norðausturlandi eða vegna eldgosa eða annars, að möguleiki sé á því að bregðast við og hægt að treysta að því verði fylgt eftir með fjárveitingu. Þetta hefur á engan hátt verið misnotað enda held ég að fyrri ríkisstjórn hafi ekki notað nema innan við helming af óráðstöfuðum fjárveitingum og langt innan við helming áður en hún yfirgaf stólinn. Það er því svigrúm til að gera þetta af þeim fjárveitingum en það er þá vegna einhverra annarra hluta ef menn taka ekki (Forseti hringir.) svona leiðréttingu inn í fjáraukalögin.