143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir að fá hér tækifæri til að ræða aðeins ástandið á Ríkisútvarpinu, ekki síst það sem snýr að starfsmönnum þess. Það mætti margt segja um rekstur Ríkisútvarpsins frá því að því var breytt í opinbert hlutafélag. Það virðist gleymast, að minnsta kosti í máli útvarpsstjóra þegar hann ónotast út í allar ríkisstjórnir fyrr og síðar, að svo var komið á vordögum 2009 að endurfjármagna varð Ríkisútvarpið eftir rekstur þess í formi hlutafélags í þrjú ár eða svo og leggja því til á sjötta hundrað milljónir króna. Það létu menn sig hafa á botni kreppunnar vorið 2009.

Síðan voru að sjálfsögðu bundnar vonir við að þegar rofa færi til í efnahagsmálunum yrði hægt að gera betur við Ríkisútvarpið og að þrengingum þess mundi linna. Það var meðal annars gert með nýjum lögum og með áætlun um að Ríkisútvarpið fengi svo að njóta allra markaðra tekna sinna og þær yrðu hækkaðar þó að nokkrar takmarkanir á auglýsingatekjum kæmu á móti. Ný ríkisstjórn virðist hafa mótað allt aðra stefnu í málefnum Ríkisútvarpsins. Í fyrsta lagi var að sjálfsögðu forgangsverkefni hjá hæstv. ráðherra að koma sínum mönnum að þar í stjórn með gamla laginu, skipa hér pólitískt á Alþingi, og nú er allt annað uppi varðandi fjárveitingar til stofnunarinnar. Ríkisútvarpið metur það svo að vegna þess sem við því blasi í fjárlagafrumvarpinu og áherslum ríkisstjórnarinnar inn í framtíðina dugi ekkert annað en stórfelldar uppsagnir, 60 manns á að segja upp og þegar hafa 39 fengið reisupassann.

Það sem vekur sérstaka athygli er bæði hvernig að þessu er staðið og hvar borið er niður. Búið er að segja upp helmingi fastráðinna starfsmanna Rásar 1. Hæstv. ráðherra hefur sagt að sérstaklega eigi að standa vörð um sérstöðu Ríkisútvarpsins og hið sérstaka hlutverk þess, væntanlega þá líka menningarhlutverk. Er það gert með því að ráðast sérstaklega á Rás 1 þar sem tónlistardeildin hefur nánast verið þurrkuð út þannig að Evrópska útvarpssambandið, Blindrafélagið og fleiri hafa mótmælt sérstaklega?

Hvernig að þessu er staðið er svo saga til næsta bæjar. Fólki er hent út samdægurs, jafnvel starfsmönnum sem hafa unnið þarna dyggilega áratugum saman er gert að fara heim samdægurs, fá ekki að ljúka þeim verkefnum sem þeir eru með í höndunum, sumir sem eru að nálgast eftirlaunaaldur — nei, stjórnendurnir velja frekar að senda þeim launin heim í heilt ár en að nota starfskrafta þeirra það sem eftir er áður en þeir fara á eftirlaun. Maður hlýtur að spyrja, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra náði sínu fram og kom sínum trúnaðarmönnum inn í stjórn Ríkisútvarpsins, þar á meðal stjórnarformanninum, sem fer, stjórnin, samkvæmt nýjum lögum, með æðsta vald í málefnum fyrirtækisins milli aðalfunda, ber ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og að farið sé að lögum og á að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur. Það fellur varla undir daglegan rekstur að segja upp 60 manns. Nú er spurningin: Stendur hæstv. ráðherra á bak við stjórnarformann sinn í þessum aðgerðum? Treystir hæstv. ráðherra sér til að bera ábyrgð á stjórnarformanni sínum og útvarpsstjóranum eins og að þessu er staðið? Leggur ráðherra blessun sína yfir þetta allt saman, þar með talið útreiðina á Rás 1?

Það þýðir ekki fyrir ráðherra eða þess vegna útvarpsstjóra að vísa hvor á annan. Við getum öll lesið lögin og okkur eru þau í fersku minni frá því að gengið var frá þeim á Alþingi á síðasta ári.

Þetta er Ríkisútvarpið okkar allra og þess vegna hlýtur maður líka að spyrja: Stendur virkilega ekki til að bæta eitthvað úr fjárveitingum til Ríkisútvarpsins sem í staðinn fyrir að fá bætta stöðu á næsta ári og á árunum í framhaldinu með því að fá allt útvarpsgjaldið á að fá lækkun upp á 314 milljónir? Ef saman er lagt versnar staðan að þessu leyti um yfir 800 milljónir, mínus að vísu það sem til stóð að takmarka svigrúm útvarpsins í auglýsingatekjum.

Allt önnur og kolsvört mynd er núna dregin upp fyrir útvarpið í stað þess að þar átti að horfa til betri tíma. Er þetta allur metnaður ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að eitthvað verði bætt úr fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins áður en fjárlögum verður lokað þannig að að minnsta kosti megi draga eitthvað af þessum aðgerðum til baka og helst þær allar saman?

Hér er um alveg nýja tíma að ræða þegar gengið er svona nærri hjarta Ríkisútvarpsins sjálfs, Rás 1, eins og þarna er gert, og geri ég þó ekki lítið úr því hversu erfitt þetta er fyrir aðrar deildir, hvort sem það er Rás 2 eða sjónvarpið.