143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu. Fyrst hvað það varðar hvort ég beri traust til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins þá ber ég að sjálfsögðu fullt traust til hans.

Hér var sagt að um væri að ræða alveg nýja tíma. Ég aflaði mér upplýsinga um ríkisframlagið til Ríkisútvarpsins á undanförnum árum, lét færa það upp að verðgildi ársins 2013 og skoða þann tíma sem síðasta ríkisstjórn var í ábyrgð fyrir þessa stofnun. Þá blasir við sú mynd að á þeim fjórum árum, þ.e. frá rekstrarárinu 2008/2009 til 2011/2012, lækkaði ríkisframlagið um tæplega 1 milljarð kr. á verðlagi ársins 2013. Það var sú tíð þegar hv. þingmaður, málshefjandi, var meðal annars hæstv. fjármálaráðherra, þá lækkaði framlagið um allt að því 1 milljarð. Þess vegna þurfti Ríkisútvarpið að auka starfsemi sína á auglýsingamarkaði. Þegar horft er til þess hlutfalls sem var á milli auglýsingatekna annars vegar og heildartekna hins vegar fer þetta hlutfall úr því að vera 30% af heildarfjármunum sem Ríkisútvarpið hefur til að spila úr yfir í 40% á tímabilinu. Þetta hefur auðvitað veruleg áhrif á eðli og starfsemi þessarar stofnunar.

Af því að hér var spurt um metnað, hv. þingmaður spurði um metnað, spyr ég mig um þann metnað sem birtist í því að á þessu tímabili hafi framlagið verið lækkað um milljarð á raunvirði og að sú þróun hafi verið látin ganga fram sem hér var lýst hvað varðar auglýsingatekjur. Síðan er tekin ákvörðun um það af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að segja: Jæja, nú skulum við draga úr þætti auglýsinganna og í staðinn komum við með meiri peninga úr ríkissjóði inn í Ríkisútvarpið. Og hver átti að sjá um þá fjármögnun? Hver átti að leysa það verkefni? Það var auðvitað næsta ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Og hér er kallað fram í, virðulegi forseti: Almenningur. Almenningur er skattgreiðendur á Íslandi. (BirgJ: Sem borgar nefskatt.) Sem borgar nefskatt? Haldið þið að það sé einhver munur á nefskatti eða öðrum skatti þegar verið er að tína upp úr pyngjunni? Haldið þið að þeir sem borga skatta sjái mun á því að borga nefskatt eða aðra skatta? Þetta eru allt skattar til ríkisins. Það sem skiptir máli er að staðan var einfaldlega sú að búið var að setja lög sem sögðu: Það þarf að takmarka Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Spurningin var þessi: Erum við í færum með að setja meiri fjármuni úr ríkissjóði þangað? Svarið sem við stöndum frammi fyrir endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd sem við sjáum hvað varðar stöðu ríkisfjármála á þessu ári, en það að Ríkisútvarpið þurfti að auka tekjur sínar á auglýsingamarkaði hafði auðvitað áhrif á aðra miðla í landinu sem treysta á auglýsingatekjur.

Ég aflaði mér upplýsinga um stöðuna hjá fyrirtækinu 365, hvernig þróunin hefði verið frá árslokum 2006 þegar þar voru 460 stöðugildi sem fóru niður í 280 vorið 2013 sem dæmi, 40% fækkun. Þegar við skoðum til dæmis Morgunblaðið, af því að ég veit að margir hv. þingmenn hafa áhuga á því blaði, sjáum við að þar var fækkunin um 109 starfsmenn, úr 279 í 170, líka um 40%. Þessir miðlar áttu erfiðara uppdráttar vegna þess að þrengra var um á auglýsingamarkaði.

Fyrir okkur liggur þá að endurnýja þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Sá þjónustusamningur þarf auðvitað að endurspegla þá stöðu sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir hvað varðar fjármuni. Það er þó enn þannig að umtalsverðir fjármunir eru til staðar í þessari stofnun. Ég var að skoða fjárframlög ríkisins til ýmissar menningarstarfsemi í landinu og bar það saman við til dæmis Ríkisútvarpið, heildina, ef ég tel saman fjárframlög til Sinfóníunnar, Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins, Kvikmyndamiðstöðvarinnar og Hörpu, ríkisframlagið, er það um það bil á pari við það sem við setjum til Ríkisútvarpsins, þ.e. ríkisframlagið.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að við erum að verja umtalsverðum fjármunum til Ríkisútvarpsins, þar eru umtalsverðir fjármunir til að standa undir mjög mikilvægri starfsemi. En það þýðir að þegar kemur að því að endurnýja þjónustusamninginn þurfum við að horfa til þessara þátta: Hvernig skilgreinum við hlutverkið, hvernig verður því best sinnt? Það eru til fjármunir í þessari stofnun til að sinna því hlutverki, ég er þess fullviss.

Enn og aftur — af því að spurt var hvort ég bæri traust til stjórnarformanns og stjórnar fyrirtækisins: Að sjálfsögðu geri ég það.