143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi umræða fór nú öðruvísi af stað en ég átti von á. Enn einu sinni fáum við þá yfirlýsingu frá ráðherra að búið sé að skera svo mikið niður að óhætt sé að skera miklu meira; svo kemur þetta aftur með að hlutverk RÚV sé ekki skýrt.

Við erum að ræða hér um útvarp sem er undir sérstökum lögum sem heita raunar Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu. Þar er talað um að framleiða eigi og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni. Það á að flytja fréttir af öllu landinu, það á að flytja fréttaskýringar, fræðsluþætti, íþróttaþætti, afþreyingu af ýmsum toga, lista- og menningarþætti, sérstakt efni fyrir börn og ungmenni. Það á að vera með að minnsta kosti tvær hljóðvarpsdagskrár og einnig sjónvarpsdagskrá árið um kring. Þetta er allt saman tilgreint í lögum. Ráðherra verður að svara spurningunni: Ætlar hann að breyta þessu? Það er væntanlega það sem hann er að boða hér.

Það er ótrúlegt að fylgjast með þessu. Við vorum búin að setja þetta þannig upp að útvarpsgjaldið ætti að renna óskipt til Ríkisútvarpsins. Því er verið að breyta. Það er verið að nota nefskatt sem skattstofn fyrir aðrar stofnanir, fyrir annan ríkisrekstur, og það er mikið áhyggjuefni.

Við sjáum í öllum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar að verið er að breyta hugsuninni á bak við rekstur fjölmiðilsins Ríkisútvarpsins. Það er verið að breyta því á þann veg að markaðstorg einkafyrirtækjanna eigi að ráða framboðinu; ríkið eigi svo að hirða afganginn, því sem verður að sinna og ekki er hægt að láta einkaaðilana hafa hagnað af.

Ég ætla rétt að vona að við sjáum breytingar hér í fjárlagafrumvarpinu þannig að útvarpsgjaldið renni til Ríkisútvarpsins, að farið verði yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið og þær endurskoðaðar, við höfum til þess tíma. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að taka myndarlega á málinu og snúa af þessari braut. Það er enginn þjóðarvilji fyrir öðru en að hér sé fjölmiðill í almannaþágu þar sem maður getur orðið áskrifandi að einni stöð sem dugir manni, ef maður vill ekki endilega bæta einhverju við og kaupa rásir hingað og þangað.