143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það sem við erum ekki að ræða hér er hvernig Ríkisútvarp við viljum. Því miður er þessi umræða að snúast upp í það sem þessi ríkisstjórn gerði og sú síðasta og samanburð á því. Það sem við gagnrýnum við þær aðgerðir sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir er hversu handahófskenndar þær eru og hversu óvíst og óljóst það er hvernig stofnun við munum fá út úr þessari niðurstöðu. Engin vinna fer fram í því að ákveða hvert við ætlum að fara, hver stefnan er. Þetta er bara skorið niður og svo kemur eitthvað upp úr krafsinu.

Auðvitað er hægt að spara eða nýta peningana betur en verið er að gera. Það eru gríðarlega hraðar breytingar í fjölmiðlaumhverfinu og í fjölmiðlarekstri. Hver sem er getur fundið upp á því að hugsa fimm ár aftur í tímann og velta því fyrir sér hvernig símtæki hann hafði þá og hvaða möguleika það hafði upp á að bjóða. Gerbreyting hefur orðið á fréttaneyslu, hún er allt öðruvísi en verið hefur, hún hefur tekið miklum breytingum. Það sama má segja um neyslu afþreyingarefnis sem er óðum að færast yfir á netið.

Rás 1 gegnir gríðarlega miklu og mikilvægu hlutverki en kúnnahópur hennar og hlutverk á eftir að taka miklum breytingum á næstu fimm til tíu árum og við verðum að horfa til þess.

Það sama má segja um Rás 2. Þegar kemur að útbreiðslu nýrrar tónlistar — gríðarlega mikið hlutverk sem er óðum að taka miklum breytingum og er að breytast bara með tilkomu nýrra forrita og samfélagsmiðla á borð við Spotify. Þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa til en því miður er eingöngu verið að fara í mjög handahófskenndan niðurskurð með algerlega óljósri útkomu.