143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[15:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki skemmtilegt að þurfa að nota mínar tvær mínútur til að leiðrétta söguskýringar hæstv. ráðherra um fortíðina. En þegar við skoðum tölurnar og skoðum niðurskurð á milli áranna 2008 og 2009, miðað við verðlag ársins 2013, var Ríkisútvarpið skorið niður um 407 milljónir. Þá um haustið, 2008, var útvarpsgjaldinu sem ætlað var að vera markaður tekjustofn — þá var þeirri mörkun kippt úr sambandi. Ef við tökum hins vegar heildina frá 2009 til 2013 er skerðingin á fjárlögum, miðað við verðlag ársins 2013, 366 milljónir og þá er ég ekki að taka inn þennan hálfa milljarð sem settur var inn sem eiginfjárframlag í Ríkisútvarpið. Mér finnst, eins og ég segi, ekki skemmtilegt að eyða mikilvægum tíma í fortíðina en ég held að við verðum að horfa á þetta og þetta sést auðvitað í þeim uppsögnum sem voru strax þá árið 2008, tvær hrinur.

Það sem ég vil hins vegar inna hæstv. ráðherra eftir er að hann sagði í umræðum á dögunum að hann teldi gríðarmikilvægt að standa vörð um Rás 1 sem var hluti af umræðu hér um hlutverk Ríkisútvarpsins. Í kjölfarið er helmingi fastráðinna starfsmanna Rásar 1 sagt upp störfum. Mér finnst því merkilegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa yfir fullu trausti á þeim aðgerðum sem framkvæmdar hafa verið því að þær virðast þá gjörsamlega stangast á við hans eigin yfirlýsingar hér í síðustu umræðu sem ekkert er mjög langt síðan við áttum.

Ég velti fyrir mér þegar rætt er um hlutverk Ríkisútvarpsins — og það má heldur ekki skauta fram hjá þeirri staðreynd að ætlunin var að núna um áramótin mundi útvarpsgjaldið renna óskert til þessarar starfsemi. Sama hvernig við teygjum það og togum og tölum um ríkisreksturinn getur núverandi ríkisstjórn ekki horft fram hjá því að það er hennar val hvernig tekjuöflun hefur verið skert, hennar val hvernig skattar hafa verið lækkaðir og hennar val að velja það að útvarpsgjaldið renni ekki óskert til Ríkisútvarpsins heldur sé nýtt að hluta í ríkissjóð.

Það er ekki hægt að (Forseti hringir.) fara fram hjá þeirri staðreynd.